Samgöngur eru meðal helstu grunnstoða í innviðum þjóðfélagsins. Lögbundin markmið samgangna eru að þær séu greiðar, hagkvæmar, öruggar, umhverfislega sjálfbærar og stuðli að jákvæðri byggðaþróun. Stefnumörkun og framkvæmdaáætlun hverju sinni er kynnt í samgönguáætlun og er þá tekið mið af þjóðhagslegu mikilvægi. Greiðar og öruggar samgöngur eru forsenda lífsgæða. Er þetta svona að öllu leyti þegar til kastanna kemur? Svarið er að hluta til nei.
Öllum sem fara um vegakerfið má vera ljóst að ýmsu er ábótavant og sums staðar er það komið að fótum fram. Samgöngukerfið hefur því miður mátt lúta sofandahætti og aðgerðarleysis um langa hríð. Auðvitað skildi maður ætla að stjórnvöld ætli sér að gera sitt besta í þessum málum en einhverra hluta vegna er margt óunnið í þessum efnum. Komið er að skuldadögum.
Uppbygging innviða hefur algjörlega setið á hakanum
Mikil fólksfjölgun hefur verið á síðustu 10–15 árum og samfara því fjölgar bílum óneitanlega á götum höfuðborgarsvæðisins. Á sama tíma hafa innviðirnir ekki fylgt eftir með þeim afleiðingum að umferð hefur þyngst til muna. Uppbygging innviða hefur algjörlega setið á hakanum með þeim afleiðingum sem allir sjá. Þungar umferðarteppur blasa við öllum á öllum tímum dagsins. Þá blasir við gífurleg uppbygging í þessum efnum á næstu árum. Ekki er lengur í boði að horfa á vandamálið og gera ekki neitt.
Sundabraut hefur verið á aðalskipulagi Reykjavíkur frá 1984
Í áratugi hefur verið talað um að Sundabraut yrði gríðarleg samgöngubót, sem hún sannarlega átti að verða. Miklar umræður hafa farið fram um smíði hennar og flestir eru sammála um ágæti slíkra framkvæmda. Saga hennar er með ólíkindum en Sundabraut hefur verið á aðalskipulagi Reykjavíkur frá 1984 en hafist var handa við undirbúning hennar í desember 1995. Vegagerðin og embætti borgarverkfræðings í Reykjavík komu þá fyrst með tillögur að staðsetningu vegarins ásamt gerð hans og var kraftur var settur í frumhönnun og rannsóknir á árunum 1995 til 2002 við fyrsta áfanga verksins, að mestu leyti. Eftir þetta gerðist fátt. Í október í fyrra var hins vegar náð mikilvægum áfanga í undirbúningi þessarar framkvæmdar.
Borgarráð samþykkti þá verklýsingu skipulagsgerðar og umhverfismats vegna Sundabrautar. Kynning á umhverfismati og breytingu á aðalskipulagi hefur farið fram og nú gera aðilar sér vonir um að framkvæmdir við hana gætu hafist árið 2026. Kynningarfundir á vegum Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar hafa verið haldnir. Ekki verður aftur snúið. Stjórnvöld sýnið það nú í verki!
Nú verður að bretta upp ermar og láta verkin tala
Í uppgerðum samgöngusáttmála er lögð áhersla á styttri ferðatíma, minni tafir og aukið umferðaröryggi. Lögð verður höfuðáhersla á skilvirka og hagkvæma uppbyggingu samgönguinnviða. Markmiðið er að samgöngur á höfuðborgarsvæðinu verði í fremstu röð þannig að svæðið og Ísland allt verði samkeppnishæft um bæði fólk og fyrirtæki. Eru þetta raunverulega markmið miðað við það sem á undan er gengið? Engu að síður sjá allir að hér verður ekki staðar numið. Nú verður að bretta upp ermar og láta verkin tala. Gatnakerfið er sprungið, við því verður að bregðast.
Jón Kristján Sigurðsson ritstjóri FÍB Frétta
Fyrst birt í 2.tbl. 2024 FÍB Blaðið