Tvöföld­un Reykja­nesbrautar vel á undan áætl­un

Lestími: 2 mín

Verkinu Reykjanesbraut (41) Krýsuvíkurvegur – Hvassahraun vindur fram með góðum hraða og er verktakinn ÍAV töluvert á undan áætlun. Á næstu vikum verður töluvert mikið um færslu umferðar á milli akreina, umferð verður hleypt á nýjan kafla meðan unnið verður á gamla kaflanum. Umferðin verður þá á einni akrein í hvora átt.

Mikilvægt er að fylgja merkingum vel og virða hámarkshraða sem verður víða tekinn niður í 50 km/klst og jafnvel 30 km/klst að því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Ökumenn virða ekki hámarkshraðann

Má minna á að lögreglan hefur að undanförnu staðið að hraðamælingum á vinnusvæði og sektað töluverðan fjölda ökumanna, sem jafnvel hafa misst ökuréttindin fyrir að aka á meira en tvöföldum leyfilegum hraða.

Hleypa umferð á tvöfalda Reykjanesbraut mun fyrr en áætlað var

Reikna má með að hægt verði að hleypa umferð á tvöfalda Reykjanesbraut mun fyrr en áætlað var. Í útboðsskilmálum var lagt fyrir um verklok í júní árið 2026. Hugsanlegt er að það náist, ef vel gengur með að ljúka vegagerðinni, malbikun, uppsetningu vegriða, ljósastaura og annars nauðsynlegs búnaðar þannig að hægt verði að hleypa umferð á nýjan tvöfaldan veg fyrir árslok 2025. Eigi að síður yrði eftir ýmiss frágangur og vinna við hringtorg við mislæg vegamót.

Fyrir verkinu hjá ÍAV fara þeir Ágúst Jakob Ólafsson verkstjóri og Einar Hrafn Hjálmarsson sem fer með umsjón verksins. Þeir benda á að gott skipulag í verkinu, sú breyting að byggja samhliða umferðarbrýr yfir allar akreinar í einu, með hjáleið framhjá , í stað þess að byggja fyrst eina og síðan aðra hafi tekið skemmri tíma.

Þannig hafi ýmislegt hjálpað til við að flýta framkvæmdum. Eftir er að leggja nokkurn kafla af nýjum vegi í átt að Hvassahrauni, síðan er þó nokkuð verk eftir vegna lagna sem er viðamikill hluti þessa verks.

Fram kemur að enn sé ökuhraði á vinnusvæðinu alltof mikill, merkingar illa virtar. Það séu helst erlendir ferðamenn sem aka á löglegum hraða. En eigi að síður er tilfinning þeirra að líklega hafi ástandið aðeins lagast frá því að framkvæmdir hófust, þótt það þyrfti að vera mun betra.

Á næstu vikum verða fráreinar að Straumsvík malbikaðar

Á næstu vikum verður unnið við Álhellu, t.d. verða fráreinar að Straumsvík malbikaðar, vegrið rekið niður og stofnstígur undirbyggður. Við Hraunavík verður unnið við að fleyga rásir og að undirbyggingu stofnstígs. Þá er unnið við lagnir hjá álverinu í Straumsvík. Unnið verður að frágangi stálundirganga við Straum. Svo dæmi séu tekin.

Ljóst er að á næstu vikum verður mikil starfsemi á vinnusvæðinu, breytingar á umferð fram og til baka og því er sérstaklega þörf á árvekni vegfarenda næstu vikur og mánuði.

Deila grein: