Umferðin jókst á höfuðborgarsvæðinu

Lestími: < 1 mín

Ólíkt því sem varð á Hringvegi í júlí jókst umferðin á höfuðborgarsvæðinu um ríflega tvö prósent. Meiri umferð hefur ekki áður mælst í júlí um þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar. Umferðin í ár er meiri en hún var í fyrra og útlit er fyrir að umferðin í ár aukist um nærri þrjú prósent.

Fram kemur í tölunum að umferð hefur aldrei verið meiri í júlí, innan höfuðborgarsvæðis, en 2,1% aukning varð í umferðinni í nýliðnum mánuði, borið saman við sama mánuð á síðasta ári. Þess ber þó að geta að júlí er með umferðarminnstu mánuðum ársins, innan höfuðborgarsvæðis. Aukning varð í öllum mælisniðum en mest jókst umferðin í mælisniði á Hafnarfjarðarvegi, við Kópavogslæk (3,1%).

Umferð frá áramótum
Nú þegar árið er rétt rúmlega hálfnað er uppsöfnuð umferð, fyrir mælisniðin þrjú, orðin 2,1% meiri en hún var á sama tíma á síðasta ári.

Umferð eftir vikudögum
Umferð jókst í öllum vikudögum, utan mánudaga (-0,9%).  Hlutfallslega jókst umferð mest á sunnudögum (7,0%). Mest var ekið á fimmtudögum en minnst á sunnudögum, í nýliðnum mánuði. Núna stefnir í að umferðin geti aukist um tæp 3% á milli ára. Meðalumferðaraukning á ári, milli áranna 2005 til 2024, innan hbsvæðis, er um 2,4%.

Deila grein: