Ljósmynd: DV/Hanna

,, Þarna sé verið að boða stórfellda hækkun á vörugjöldum af ökutækjum“

Lestími: < 1 mín

Gert er ráð fyrir stórfelldri tekjuaukningu ríkissjóðs af vörugjöldum af ökutækjum í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, en þar kemur fram að tekjur af þeim lið aukist um 66,2% á næsta ári, miðað við það sem gert er ráð fyrir að gjaldið skili á þessu ári. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu dag í umfjöllun um málið.

Ef tekjur af vörugjöldum í fjárlögum þessa árs eru bornar saman við áformaðar tekjur skv. fjárlagafrumvarpi á næsta árs nemur tekjuaukningin 81,54%, eða tæpum átta milljörðum króna. Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í fjárlaganefnd í samtali við Morgunblaðið, vera algerlega óraunhæft. Engar líkur séu á að slíkur fjöldi bíla seljist á næsta ári að vörugjöld af þeim muni skila viðlíka tekjum og gert sé ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

Engar skýringar hafi verið gefnar fjármála- og efnahagsráðuneytinu á hækkuninni

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB segir að svo virðist sem þarna sé verið að boða stórfellda hækkun á vörugjöldum af ökutækjum, engar skýringar hafi verið gefnar fjármála- og efnahagsráðuneytinu á hækkuninni, þótt eftir því hafi verið leitað.

Þá dregur Guðlaugur Þór í efa að tekjur ríkissjóðs af álögðum sköttum og gjöldum á bifreiðaeigendur muni skila tæplega 20 milljarða tekjuauka til ríkissjóðs á næsta ári eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu, miðað við fjárlög þessa árs. Hlutfallsleg tekjuaukning á milli áranna yrði skv. frumvarpinu ríflega 31%.

Guðlaugur Þór segir í samtalinu við Morgunblaðið að yfirlit í fjárlagafrumvarpinu um ólögfestar skattkerfisbreytingar sem ganga eigi í gildi á næsta ári rími illa við það sem frumvarpið sjálft segir um skatta af ökutækjum og eldsneyti. T.a.m. komi fram í yfirlitinu að kílómetragjald á bifreiðir eigi að skila 3,3 milljarða tekjuauka á næsta ári. Til viðbótar eigi að koma 7,5 milljarða tekjuaukning vegna endurskoðunar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis, sem hefur ekki verið útfært.

Deila grein: