Ný göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut hefur formlega verið tekin í notkun í tilefni af Samgönguviku. Fimmtíu börn í 4. bekk í Vogaskóla tóku þátt í opnuninni.
„Brúin hefur verið í notkun í rúman mánuð, eða frá 18. ágúst síðastliðunum og hefur fengið mikla athygli. Um miðja þessa viku var talið hversu mikil umferð er um brúna á annatíma og í ljós kom að þá fóru 79 gangandi og 43 á hjóli yfir hana. Þetta voru að stórum hluta börn en það búa 111 börn í Vogabyggð. Börn og íbúar í Vogabyggð voru okkur ofarlega í huga við útfærslu brúarinnar og því ánægjulegt að þessir aðilar séu að nýta brúna vel,“ sagði Bryndís Friðriksdóttir, svæðisstjóri Höfuðborgarsvæðis Vegagerðarinnar, við opnunina.
Tímabundin brú
Brúin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi þar sem að hún er færanleg og því hægt að endurnýta hana. Henni er ekki ætlað að standa á þessum stað til frambúðar því þegar framkvæmdir við Sæbrautarstokk hefjast er áætlað að taka brúna niður og setja hana upp á öðrum stað.
Brúin er sett saman úr einingum, hún er 28 metra löng og um 30 tonn að þyngd, er yfirbyggð og veitir þannig skjól fyrir veðri og vindum. Stigahús og lyftur eru við báða enda brúarinnar til að tryggja öllum aðgengi.
Bygging brúarinnar er fjármögnuð af Samgöngusáttmálanum og var samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Betri samgangna. Ístak sá um að byggja brúna, VBV var með eftirlit og Verkís og GlámaKím hönnuðu brúna. Vegagerðin hafði yfirumsjón með verkinu fyrir hönd verkkaupa.
