Eins og gert er ráð fyrir verða vörugjöld á ökutæki hækkuð um 66,2% á næsta ári. Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag segir Bjarni Þórarinn Sigurðsson, framkvæmdastjóri sölusviðs BL að nái þessar hækkanir fram að ganga verði áhætt að tala umað það verði hrun í sölu nýrra bíla.
Bjarni bendir á að vörugjöldin eigi að skila um 7,5 milljörðum króna til viðbótar í ríkissjóð, sem sé einungis 100 milljónum minna en hækkuðum veiðigjöldum sé ætlað að skila í ríkiskassann.
„En við þetta má bæta að síðan er ætlunin að auka skattheimtu á ökutæki enn frekar með breytingu á kílómetragjaldinu, sem skila á ríkissjóði um 4 milljörðum króna umfram skattalækkanir á móti. Samanlögð er fyrirhuguð tekjuaukning ríkisins af ökutækjum áætluð um 11,3 milljarðar króna í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2026,“ segir Bjarni Þórarinn.
Einn elsti bílaflotinn
Bjarni nefnir að verði áform stjórnvalda að veruleika séu verulegar líkur á að sala á nýjum bílum hér á landi sé á leið inn í enn eitt samdráttarskeiðið með þeim þekktu afleiðingum og aðgerðum sem fyrirtæki þurfi jafnan að ráðast í til að laga sig að breyttum aðstæðum. Fyrir því séu mörg þekkt fordæmi.
„Á sama tíma er bílafloti landsmanna orðinn einn sá elsti í Evrópu og ef heldur fram sem horfir mun fyrirsjáanlegur samdráttur í bílasölunni vinna á móti markmiðum um orkuskipti í samgöngum og þar með alþjóðlegum loftslagsmarkmiðum,“ segir Bjarni Þórarinn.
Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB sagði í síðustu viku að svo virðist sem þarna sé verið að boða stórfellda hækkun á vörugjöldum af ökutækjum, engar skýringar hafi verið gefnar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu á hækkuninni, þótt eftir því hafi verið leitað.
Í umfjöllun á fibfrettir.is á dögunum kom fram að samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs ætlar ríkissjóður að hafa meira en 100 milljarða króna tekjur af bílum og notkun þeirra á vegum landsins.
Tekjur af innflutningi ökutækja, akstri og eldsneyti eru áætlaðar 78 milljarðar króna
Tekjur af innflutningi ökutækja, akstri og eldsneyti eru áætlaðar 78 milljarðar króna. Á hluta þessara tekjupósta leggst virðisaukaskattur að auki. Til viðbótar hefur ríkissjóður miklar tekjur af sköttum á viðgerðar- og varahlutaþjónustu. Það verða því vel yfir 100 milljarðar króna sem bíleigendur leggja til sameiginlegra sjóða á næsta ári.
Útgjöld ríkisins til vegamála eru áætluð 46 milljarðar króna 2026, eða innan við helmingur af því sem eigendur ökutækja eiga að borga. Þar af eru rúmlega 34 milljarðar áformaðir í framkvæmdir og viðhald vegakerfisins.
Benedikt S. Benediktsson framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins segir í Morgunblaðinu að í fjárlagafrumvarpinu sé boðuð mjög mikil skattahækkun á almenning og fyrirtæki. Óljóst sé hvaða breytingar eigi að ráðast í til að afla þeirra 7,5 milljarða sem eru merktir sem „endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis“.