Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að segja upp samningi um gjaldtöku á bílastæðum á gjaldsvæði 4 (P4) að því er fram kemur í Morgunblaðinu í morgun.
Svæðið nær meðal annars að Landspítalanum við Eiríksgötu og Fossvog, Háskólanum í Reykjavík og Húsfélaginu við Borgartún 8-16 og Katrínartún 2. Þetta kemur fram í máli Lífar Magneudóttur sem er formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar.
Að sögn Lífar hefur borgin, eins og staðan er í dag, verið með samninga um að rukka fyrir stæði á lóðum sem ekki eru á borgarlandi, þar á meðal við Landspítalann.
Komin sé upp samkeppni
„Núna erum við sem sagt að fara frá því að veita þessa þjónustu,“ segir hún og bendir á að komin sé upp samkeppni. Af þeim sökum sé borgin að hætta að taka að sér að innheimta gjöld og setja verðskrá fyrir lóðir sem ekki eru á landi hennar. Hún segir að gera megi ráð fyrir að fleiri slíkar uppsagnir fylgi. Líf bendir á að það verði á hendi þeirra sem eiga bílastæðin að ákveða fyrirkomulag bílastæðamála, þar á meðal hvort farið verði í útboð á þjónustunni.
„Spítalinn hefur t.a.m. lengi viljað vera með sína verðskrá,“ segir Líf. Líf segir jafnframt að nú geti lóðarhafar stjórnað þessu sjálfir og beinir góðlátlegri ábendingu til spítalans. Hún segist hafa heyrt af fjölda fólks sem þurfi að mæta reglulega í m.a. krabbameinsmeðferð sem taki þrjá eða fjóra tíma í senn og þurfi að borga í stæði.
„Mér finnst að Landspítalinn eigi að gefa þessum sjúklingum sem eru í yfirstandandi meðferð að geta lagt þarna endurgjaldslaust meðan á meðferð stendur.“







