Boða stórfellda hækkun á vörugjöldum

Lestími: < 1 mín

Í fjármálaáætlun 2026-2030, sem Alþingi samþykkti í sumar, er gert ráð fyrir að vörugjöld við innflutning ökutækja hækki um 7,5 milljarða króna. Breytingarnar eru sagðar viðbragð við samdrætti í tekjuöflun af samgöngum, sem meðal annars stafar af tækniframförum og orkuskiptum.

Samhliða hækkun vörugjalda er einnig gert ráð fyrir aukinni skattheimtu með breytingum á kílómetragjaldi, sem skila á ríkissjóði um 4 milljörðum króna til viðbótar. Samtals er því áætlað að tekjuaukning ríkisins af ökutækjum nemi um 11,3 milljörðum króna á næsta ári.

FÍB fylgist sérstaklega með þeim þáttum í fjárlagafrumvarpi og ríkisrekstri sem varða skatta á ökutæki, uppbyggingu og viðhald samgangna á landi og loftslagsmál. Fyrsta eigin frumvarp núverandi ríkisstjórnar var í byrjun september. Í því eru furðulegar missagnir og boðaðar eru verulegar skattahækkanir á umferð og ökutæki án nokkurra skýringa. Undir eru verulegir hagsmunir neytenda og fyrirtækja vegna ökutækjanotkunar og bílgreinin er skilin eftir í óvissu um hvað sé framundan.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, var í viðtali í Býtinu, morgunþætti á Bylgjunni um vörugjöldin. Viðtalið má nálgast hér.

Deila grein: