,,Við sjáum það nú þegar að nýskráningum hefur fjölgað mikið í allt haust. Verulega umfram það sem við sáum á síðasta ári. Eftir því sem okkur skilast eru mikill straumur af bílum á leið til landsins. Það eru margir þarna út að verða sér úti um nýjan bíl ráður en þessi hækkun á vörugjöldum verður að veruleika. Einnig hefur heyrst af bílaleigum sem hafa verið að útvega sér bíla sem eiga að vera komnir fyrir áramót fyrir komandi vertíð á árinu 2026. Aðilar eru að gera ráðstafanir í ljósi þessara tíðinda,“ sagði Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, í viðtali í þættinum Reykjavík síðdegi á Bylgjunni.
Runólfur sagði ennfremur þetta til marks um leiðinlegt atferli í íslensku stjórnarfari að koma með svona byltingu í sambandi við gjaldtöku af umferðinni rétt svona korteri í áður en það á að gerast. Núna er nóvembermánuður að renna undir lok og frumvarpið varðandi þessar vörugjaldsbreytingar hefur ekki enn litið dagsins ljós.
Vörugjöld við innflutning ökutækja hækki um 7,5 milljarða króna
Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2026 sem lagt var fram á Alþingi í september kom fram að áformað væri að hækka vörugjöld af innfluttum ökutækjum um 7,5 milljarða króna eða um 65% umfram áætlaðar tekjur í ár. Engar frekari textaskýringar voru tengdar þessum tekjulið í frumvarpinu. Það var ekki fyrr en 17. október sl. að fjármálaráðherra setti inn á vef Stjórnarráðsins drög að því sem til stæði að gera varðandi gjörbreytta álagningu vörugjalda á ökutæki um komandi áramót. Frumvarp um þessi áform hefur enn ekki komið fram.
Samhliða hækkun vörugjalda er einnig gert ráð fyrir aukinni skattheimtu með breytingum á kílómetragjaldi, sem skila á ríkissjóði um 4 milljörðum króna til viðbótar. Samtals er því áætlað að tekjuaukning ríkisins af ökutækjum nemi um 11,3 milljörðum króna á næsta ári.
Í grein fjármálaráðherra kom fram að fella eigi niður 5% vörugjald af rafbílum en snar hækka vörugjöld á flest brunahreyfilsökutæki. Orkustyrkur sem rafbílaeigendur hafa notið fram að þessu lækkar um áramótin úr 900 þúsund krónum í 500 þúsund krónur.
Viðtalið við Runólf Ólafsson í Reykjavík síðdegi á Bylgjunni má nálgast hér.






