Spáð er hóflegum vexti í sölu á bílum í Evrópu 2026

Lestími: < 1 mín

Spár sérfræðinga um sölu á nýjum bílum í Evrópu árið 2026 benda til hóflegs vaxtar eftir nokkur ár af samdrætti eða stöðnun. Markaðsgreiningarfyrirtæki sem sérhæfa sig í að safna, vinna úr og greina gögn um bílamarkaðinn og nýskráningar ökutækja í Evrópu og víðar hafa verið að birta spár um þetta að undanförnu.

Greiningarfyrirtækið Dataforce spáir t.d. vexti upp á tæp 5% í Þýskalandi, Austurríki og Sviss árið 2026, þar sem vöxturinn mun að mestu leyti eiga sér stað á fyrri helmingi ársins. Oxford Economics spáir að framleiðsla nýrra bíla í Evrópu muni byrja að vaxa á ný með 2,4% vexti á næsta ári.

Rafvæðingin heldur áfram að vera mikilvægur drifkraftur

Rafvæðingin heldur áfram að vera mikilvægur drifkraftur. EV Volumes spáir að rafbílar muni ná 29,2% hlutdeild í sölu léttra ökutækja í Evrópu árið 2026. Búist er við að markaðsþróunin ráðist af vilja neytenda til að tileinka sér rafbíla.

Óvissa ríkir á íslenska markaðnum

Á heildina litið er spáð hægum bata og vexti, en hagvöxtur, neytendaóvissa og umskipti yfir í rafbíla verða áfram helstu áhrifaþættirnir. Algjör óvissa ríkir í þessum málum hvað íslenska markaðinn áhrærir. Ljóst er að bílar hækka í verði hér á landi eftir áramótin ef hækkun á vörugjöldun ná fram að ganga.

Breytt vörugjald gerir ráð fyrir að það skili 7,5 milljörðum til ríkissjóðs á næsta ári. Breytingarnar fela í sér að vörugjald á nýja rafmagnsbíla verði fellt niður en hækkað á nýja bíla sem ganga að hluta eða öllu leyti fyrir jarðefnaeldsneyti. Markmið stjórnvalda er að skapa varanlegan hvata til að velja ökutæki sem nota hreina innlenda orkugjafa í stað ökutækja sem ganga fyrir innfluttri orku.

Deila grein: