Ríkisstjórnin hefur samþykkt að stofna innviðafélag sem ætlað er að flýta stærri samgönguframkvæmdum og tryggja fyrirsjáanleika í fjármögnun þeirra til lengri tíma. Frumvarp þess efnis verður lagt fram á vorþingi.
Í tilkynningu innviðaráðherra um nýja samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar frá 2026 til 2040 segir að þetta samkomulag sé afrakstur greiningarvinnu á vegum þriggja ráðuneyta síðustu mánuði: Forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innviðaráðuneytis. Áætlað er að fyrstu verkefni félagsins verði Ölfusárbrú, Sundabraut og Fljótagöng.
„Innviðafélagið verður sjálfstætt félag og verður að fullu í eigu ríkisins. Félagið mun geta tekið að sér fjármögnun og eignarhald samgöngumannvirkja á grundvelli samnings við stjórnvöld. Þannig er stefnt að því að tryggja samfellu og aukinn fyrirsjáanleika í útgjöldum ríkisins til stærri samgönguframkvæmda, svo sem til jarðgangagerðar,“ segir í tilkynningunni.
„Stoðir í fjármögnun félagsins verða meðal annars árlegt eiginfjárframlag samkvæmt samningi við ríkið, gjaldtaka af samgöngumannvirkjum í eigu félagsins og lánsfjármögnun með ríkisábyrgð með endurlánum. Einnig getur komið til fjárfesting lífeyrissjóða eða annarra fjárfesta. Stefnt er að því að félagið geti tekið við tilteknum samgönguinnviðum sem þegar eru til staðar eða í byggingu.“







