Frumvarp um kílómetragjald samþykkt

Lestími: 2 mín

Meirihluti Alþingis hefur samþykkt frumvarp um kílómetragjald á ökutæki en lögin taka gildi 1. janúar. Samkvæmt lögunum má nú leggja kílómetragjald á öll farartæki en hingað til hefur það aðeins verið lagt á raf- og tvinnbíla. Eldsneytisgjöld munu falla niður meðfram breytingunni.

Gjaldið er metið út frá heildarþyngd umrædds ökutækis og raunakstri samkvæmt mæli, en ökutæki undir 3500 kílóum greiða 6,95 krónur fyrir hvern kílómetra. Lögin taka gildi 1. Janúar eins og áður kom fram. 34 þingmenn meirihlutans greiddu atkvæði með frumvarpinu og 18 þingmenn stjórnarandstöðunnar gegn því.

Tekið er fram í frumvarpinu að skrá þurfi kílómetrastöðu ökutækisins að minnsta kosti einu sinni á ári en ef sú skráning fer ekki fram á réttum tíma gætu eigendur ökutækisins þurft að greiða vanskráningargjald. Reiknaður verður út áætlaður meðalakstur hvers og greiða eigendur farartækjanna mánaðarlega.

Á sama tíma fellur 5% sérstakt vörugjald á nýja rafbíla niður. Rafbílar mun ekki bera vörugjald á nýju ári. í lögunum er sagt að sama eigi við um aðra bíla sem ganga fyrir hreinni íslenskri orku t.d. metani eða vetni. Gætt hefur misskilnings varðandi metanfólksbíla en þeir bílar sem eru í umferð eru blendingsbílar og nota bæði metan og hefðbundið jarðefnaeldsneyti sem orkugjafa. Sérstaka vörugjaldið á þessa bíla hækkar úr 5% í 10% og að auki lækka viðmiðunarmörk kolstvísýringsútlosunar. Losunarviðmið lækka úr 85g í 30g CO2/km, sem þýðir að fleiri bílar lenda í hærri gjaldflokkum. Þessi vörugjaldahækkun mun leggjast á alla bíla sem nota bensín eða dísiolíu. Tengiltvinnbílar munu hækka einna mest í verði út af þessum vörugjaldsbreytingum.

Styrkur orkusjóðs við kaup á rafmagnsbíl undir 10 milljónum króna lækkar úr 900 þúsund krónum í 500 þúsund. Lækkun vörugjalda á rafbíla ætti að skila hagstæðari verðum en sum umboð tala um að veiking íslensku krónunnar gæti haft öfug áhrif.

Nánari upplýsingar um kílómetragjaldið má nálgast á vef Vegir okkar allra. https://vegirokkarallra.is/

Deila grein: