Lokanir gatna á áramótum

Lestími: 2 mín

Skólavörðuholt verður lokað fyrir akandi umferð frá klukkan 22:00, 31. desember til klukkan 01:00 á nýársnótt, (1. janúar). Þá verða lokanir á nokkrum götum á gamlársdag vegna Gamlárshlaups ÍR.

Flestum aðliggjandi götum að Skólavörðustíg verður lokað fyrir akandi vegfarendum frá klukkan 16:00 þann 30. desember. Göturnar sem um ræðir eru Baldursgata, Týsgata, Óðinsgata og Vegamótastígur. Hægt verður að keyra um Skólavörðustíg til klukkan 22:00 á Gamlársdag. Opnað verður fyrir umferð að nýju 2. janúar. 

Markmiðið er að afmarka skotsvæði fyrir flugelda og tryggja öryggi fólks á svæðinu. Komið verður fyrir tryggum undirstöðum undir flugeldaskot og skotsvæðið afmarkað með keilum og borðum auk þess sem gæslufólk verður við störf. Starfsfólk Reykjavíkurborgar mun sjá um lokanir gatna og frágang eftir miðnætti.

Skert aðgengi akandi að brennum

Mælt er með að fólk komi gangandi að brennum sem verða en skert aðgengi er fyrir akandi að brennunum.

  • Við brennuna við Ægisíðu verður Ægisíðan á milli Forhaga og Sörlaskjóls/Hofsvallagötu lokuð fyrir akandi umferð á meðan á brennunni stendur.
  • Við brennuna á Geirsnefi verður ekki hægt að aka inn á Geirsnefið frá Bílshöfðanum. Bílastæði eru í boði við Hitt húsið á Rafstöðvarvegi og við Endurvinnsluna í Knarrarvogi.
  • Við Rauðavatn er óskað eftir að fólk nýti undirgöng undir Vesturlandsveginn í stað þess að fara yfir hann.
  • Í Skerjafirði er akandi vegfarendum bent á að aka Einarsnesið og leggja bílum við gömlu Shell stöðina við Skeljanes í staðinn fyrir að aka í gegnum hverfið.

Gamlárshlaup ÍR 

Gamlárshlaup ÍR  fer fram á gamlársdag og rásmark hlaupsins er á syðri akrein Sæbrautar fyrir framan Hörpu. Endamarkið er á planinu fyrir framan Hörpu. Gert er ráð fyrir að Sæbrautinni sé lokað klukkan 10:30 og opnuð um 13:30.

Skemmtihlaupið er ræst 5-7 mínútum eftir ræsingu 10 km hlaupsins og hlaupið eftir sömu braut. Skemmtihlaupið hefur engin áhrif á lokanir eða merkingar umfram 10 km hlaupið. Þrengt verður að umferð og lokað, eftir atvikum götum og afmörkuðu svæði í stutta stund á meðan götuhlaupinu stendur.

Deila grein: