Umræðan um kílómetragjaldið hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu. Í kjölfarið hafa vaknað spurningar um ýmsa þætti sem lúta að nýja gjaldinu. Ragnar Bjartmarz, formaður Verkefnastofu af tekjum á ökutækjum og umferð, var til svara í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um kílómetragjaldið.
Ýmsir hafa bent á að léttari bílar sem eyða litlu eldsneyti borga sama kílómetragjald og bílar sem væru þyngri og eyðslumeiri.
,,Útskýringar við þessu eru þær að kerfið sem nú er í gildi og er þegar komnar í gang byggja á því að borgað er annars vegar fyrir losun. Eftir þvi sem losað er meira og mengað meira þarf að borga meira og það er greitt í kolefnisgjaldinu. Það er búið að hækka það ríflega. Þeir sem losa meira koma til með að borga miðað við sína losun. Við stilltum af kolefnisgjaldið, þannig að þeir sem eru á bílum sem eyða miklu, koma til með að borga meira. Svo dæmið sé tekið um bíl sem eyðir fimm lítrum á 100 km og stór jeppi sem eyðir 15 lítrum þá er hann að borga þrisvar sinnum meira í kolefnisgjald. Það sé því alveg klárt að bíll sem eyðir meiru er að borga tvisvar til þrisvar sinnum meira en sá sem eyðir litlu. Í þessu dæmi getur verið um að ræða gamla litla bíla sem eyða litlu. Þeir eiga því auðvitað að borga meira að því að þeira eyða miklu og menga meira,“ sagði Ragnar Bjartmarz í þættinum.
FÍB lagði til að kílómetragjald taki mið af þyngd viðkomandi bíls ásamt losun koltvísýrings
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, sagði í aðsendri grein á Vísi í vikunni að FÍB hefði frá upphafi lagt til að kílómetragjald taki mið af þyngd viðkomandi bíls ásamt losun koltvísýrings. Þá væri sú staða ekki uppi núna að kílómetragjald er óhagstætt fyrir litla og eyðslugranna bíla, en hagstætt fyrir eyðslufreka og þunga bíla.
Vorið 2023 kynnti FÍB tillögu að formúlu til að reikna út kílómetragjald sem myndi endurspegla áhrif hvers einasta bíls á umhverfið ásamt álagi hans á vegakerfið. Umhverfisáhrifin koma fram í útblæstri koltvísýrings við eldsneytisbruna. Álag á vegakerfið endurspeglast í þyngd bílsins. Auðvelt er fyrir ríkið að nota þessa formúlu við útreikning kílómetragjaldsins – upplýsingar um útblástur og þyngd eru skráðar hjá Samgöngustofu.
FÍB hvatti stjórnvöld til að miða kílómetragjaldið við hvern og einn bíl
FÍB hvatti stjórnvöld til að miða kílómetragjaldið við hvern og einn bíl. Ekki var farið eftir þeim ábendingum heldur ákveðið að eitt og sama gjaldið skyldi vera fyrir bíla undir 3,5 tonnum. Það er í fullkominni andstöðu við sjónarmið í loftslagsmálum.
FÍB hefur stutt kílómetragjald á þeim forsendum að það endurspegli afnot af vegakerfinu og styðji við orkuskipti. Flatt kílómetragjald á 90% af bílaflota landsmanna gerir það ekki nema að takmörkuðu leyti.
Markmið kolefnisgjalds
Markmið kolefnisgjalds er að hvetja bæði einstaklinga og fyrirtæki til að velja vistvænni tækni og orkugjafa. Með því að skattleggja losun koldíoxíðs áforma stjórnvöld þannig að beina samfélaginu í átt að minni kolefnisútblæstri.
Fjármálaráðherra segir kílómetragjaldið leiðrétta ósanngirni
Fjármálaráðherra sagði í samtali á RÚV ekki skilja gagnrýni um að kílómetragjaldið verði til þess að fólk á sparneytnum bílum greiði meira en áður meðan jeppaeigendur greiða minna. Það kosti það sama að halda vegum landsins opnum. Hann segir kílómetragjaldið leiðrétta ósanngirni með því að smábílar og jeppar beri sama gjald. Þetta hefur verið gagnrýnt á þeim forsendum að fólk sem keyrir eyðslumeiri bíla spari með nýju fyrirkomulagi meðan fólk á eyðsluminni bílnum greiði meira en áður.







