Leggjum samkvæmt línunum

Lestími: < 1 mín

Innan Reykjavíkur verður eingöngu heimilt að leggja ökutækjum innan afmarkaðra bílastæða, þar sem bílastæði eru afmörkuð með yfirborðsmerkingu eða frábrugðnu yfirborði. Tillaga þessa efnis var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar fyrir helgina að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar.

Til að tryggja öryggi og aðgengi

Á mörgum stöðum innan borgarinnar hefur skapast sú venja að leggja ekki bifreiðum í samræmi við afmörkun á bílastæðum, svo sem skáhallt þar sem bílastæði eru afmörkuð samsíða akstursstefnu, eða þeim lagt út fyrir afmörkuð bílastæði. Þetta getur skapað hættu fyrir aðra umferð, bæði akandi og ekki síður gangandi og hjólandi. 

Þá hefur lagning sem þessi einnig neikvæð áhrif á akstur viðbragðsaðila, það er slökkviliðs-  og sjúkraflutninga, og getur gert sorphirðufólki erfitt fyrir að sinna störfum sínum.

Heimild til álagningar

Bílastæðasjóður hefur hingað til ekki talið sér fært að leggja gjöld á ökutæki sem lagt er með þessum hætti samkvæmt þeim ákvæðum umferðarlaga sem gilda um starfsemi þeirra. Með sérákvæði þessu, sem nú hefur verið samþykkt, er tryggð heimild Bílastæðasjóðs til álagningar gjalda á ökutæki sem ekki er lagt innan afmarkaðra bílastæða. Þetta á við bílastæði á borgarlandi. Tillagan hefur verið borin undir og hlotið samþykki af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

Þetta tekur gildi þegar auglýsing hefur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sem er eftir um mánuð, og gildir í allri borginni.

Deila grein: