Kynningin og upplýsingar hafi ekki verið fullnægjandi

Lestími: 2 mín

Nýtt kílómetragjaldskerfi tók gildi fyrsta dag árs og hafa landsmenn nú frest til 20. janúar til að skrá kílómetrastöðu bifreiðar sinnar á vefsíðunni island.is. Kílómetragjaldið miðast við meðalakstur sem áætlaður er út frá síðustu tveimur skráningum á kílómetrastöðu. Bent hefur verið á að skráning stöðunnar geti reynst mönnum flókin og hefur hún vafist fyrir þónokkrum, þá helst eldri borgurum.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir í samtali við Morgunblaðið allt of marga hafa leitað til þeirra vegna vandræða við skráninguna.

„Já, mjög margir. Allt of margir. Sem bendir til þess að kynningin og upplýsingar frá stjórnvöldum hafi ekki verið fullnægjandi,“ segir hann við Morgunblaðið. Hann segir meirihluta þeirra sem leitað hafa til þeirra vera eldra fólk og bætir við að starfið á skrifstofunni hafi snúist um þetta undanfarið.

Einfaldari leiðbeiningar og einhvers konar gátt

„Það má segja að starfið á skrifstofunni hafi snúist um þetta síðustu daga fyrir jól, milli jóla og áramóta og svo núna í byrjun árs, fyrir utan þessi hefðbundnu störf.“

Spurður hvernig betur hefði mátt fara að nefnir hann að einfaldari leiðbeiningar og einhvers konar gátt sem fólk gæti leitað til hefðu komið sér vel.

„Bara einfaldari leiðbeiningar og hafa einhvers konar gátt sem fólk geti leitað til, sumir eru bara í þeirri stöðu að þeir eiga ekkert gott með að fara inn á island.is og breyta sínum skráningum. Það þarf að vera einhvers konar aðstoð.“

Runólfur nefnir sem dæmi að á vefsíðu Samgöngustofu sé spjallmenni sem hægt er að spyrja spurninga.

Menn eru ekki að gera þetta í fyrsta skipti

 „Það virðist ekki hafa verið forritað fyrir þetta til dæmis.“ Hann segir þetta valda óþarfa áhyggjum og hnökra vera á framkvæmdinni sem auðvelt hefði verið að sjá fyrir.

 „Menn eru ekki að gera þetta í fyrsta skipti, þetta var gert fyrir tveimur árum fyrir rafbílana, þá lentu menn í sömu hremmingum,“ segir Runólfur Ólafsson í samtalinu við Morgunblaðið.

Deila grein: