„Það sem svíður mest er þessi margföldun á greiðslu fyrir bílastæði ef fólk greiðir ekki innan skamms tíma, jafnvel sólarhrings. Þetta er ekki í lagi,“ segir Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra um gjaldtöku bílastæðafyrirtækja í samtali við mbl.is
Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, hefur sett af stað vinnu í atvinnuvegaráðuneytinu auk þess að hafa rætt við Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra sem fer með málefni umferðarlaga, um að ná utan um þá óreiðu og oft og tíðum margföldun á bílastæðagjaldi ef ekki er greitt á svæðinu sem heimsótt er innan skamms tíma.
Snýr vinnan að því að safna upplýsingum um fyrirtæki sem sjá um gjaldtöku á bílastæðum víðs vegar um landið að því er fram kemur á mbl.is.
Danski samgönguráðherrann greip til sinna ráða
Nýlega fjölluðu fibfrettir.is um ágreining danska samgönguráðherrans við bílastæðafyrirtæki um rafræna innheimtu bílastæðasekta í Danmörku. FDM systurfélag FÍB í Danmörku hefur lengi barist gegn því að innheimtukröfur vegna bílastæðaafnota, á bílastæðum með stafrænu myndavéla eftirliti, fari sjálfkrafa í rafræna innheimtu. Nú hefur samgönguráðuneytið danska gefið út leiðbeinandi tilmæli um það hvernig skuli standa að slíkum innheimtum.
Danski samgönguráðherrann, Thomas Danielsen, hefur nú staðfest að frá 1. júlí 2025 verða aðeins þær bílatæðainnheimtur lögmætar sem búið er að festa á bíl eða afhenta ökumanni af stöðuverði. Þetta er ekki ný túlkun heldur útskýring á gildandi reglum segir samgönguráðuneytið.
Viðskiptahættir á mjög gráu ef ekki svörtu svæði
FÍB hefur á liðnum misserum ítrekað komið því á framfæri við íslensk stjórnvöld að hér séu viðskiptahættir fyrirtækja sem sinna bílastæðaþjónustu á gjaldskyldum bílastæðum um margt á mjög gráu ef ekki svörtu svæði.
FÍB hafa komið ábendingum á framfæri við innviðarráðherra
Fulltrúar FÍB hafa komið ábendingum vegna þessa ófremdarástands persónulega á framfæri við Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra og einnig við Sigurð Inga Jóhannesson þegar hann var innviðaráðherra í síðustu ríkisstjórn. Það hefur fram að þessu ríkt algert andvaraleysi hjá stjórnvöldum gagnvart þeirri óbeisluðu græðgisvæðingu sem grafið hefur um sig á íslenskum bílastæðamarkaði. Núverandi ástand er aðför gegn neytendum, ferðaþjónustunni, almannarétti og útivist.