Nissan mun fella niður 87 stöður á svæðisskrifstofu sinni í Evrópu, sem er staðsett í Frakklandi, samkvæmt skjölum fyrirtækisins og innri tölvupóstum. Þetta er hluti af alþjóðlegri endurskipulagningar- og viðsnúningsáætlun Ivan Espinosa forstjóra, sem felur í sér 15% fækkun starfsmanna.
Glíma við viðvarandi áskoranir á lykilmörkuðum eins og í Evrópu
Japanski bílaframleiðandinn, sem á í rekstrarerfiðleikum, vinnur að því að ná aftur arðsemi á meðan hann glímir við viðvarandi áskoranir á lykilmörkuðum eins og í Evrópu. Endurskipulagningaráætlun Espinosa felur í sér að draga úr alþjóðlegri framleiðslugetu Nissan Motor um tæp 30%, niður í 2,5 milljónir ökutækja, og fækka framleiðslustöðvum úr 17 í 10.
Fyrirtækið hefur um 570 starfsmenn á skrifstofu sinni í Montigny-le-Bretonneux, sem hefur umsjón með starfsemi í Evrópu, Afríku, Mið-Austurlöndum, Indlandi og Eyjaálfu. Nissan staðfesti í yfirlýsingu á um helgina að stjórnendur í Evrópu og fulltrúar starfsmanna hefðu náð samkomulagi um breytingar á skipulagi sínu.
„Þessi ákvörðun er knúin áfram af nauðsyn þess að endurspegla raunveruleika viðskiptaumhverfisins í dag og takast á við sérstakar áskoranir hjá Nissan,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Salan í Evróðu hefur dregist saman um 8% á fyrri helmingi fjárhagsársins
Nissan greindi frá því í síðustu viku að salan í Evrópu hefði dregist saman um 8% á fyrri helmingi fjárhagsársins. Bílaframleiðandinn lækkaði einnig spá sína fyrir allt árið á svæðinu um 3% niður í 340.000 ökutæki, þótt búist sé við bata vegna væntanlegra nýrra bíla og samstarfs við söluaðila.
Bílaframleiðandinn hefur tæplega 19.000 starfsmenn víðs vegar um Evrópu, Afríku, Mið-Austurlönd, Indland og Eyjaálfu, þar sem tæplega 60% þeirra eru staðsettir í Evrópu.






