Fyrstu Audi Q6 rafmagnslögreglubifreiðarnar hafa verið afhentar notendum sínum en á dögunum var gerður samningur til 7 ára um sölu á allt að 72 bifreiðum af þessari gerð til fjögurra embætta og því má gera ráð fyrir að bílarnir verði algeng sjón í borginni og víðar.
Fyrst til að fá þessi nýju tæki voru lögreglumenn sem sinna samfélagslöggæslu og umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Mikil eftirvænting er einkennandi þegar ný lögreglutæki koma í flotann, en eins og mörg vita þá eru lögreglubifreiðar ekki bara tæki til að komast milli staða, heldur skrifstofa, aðsetur og vinnurými lögreglumanna – það er því mikilvægt að tækin séu vel til þess fallinn – kraftmikil en jafnt sparsöm og umfram allt örugg.
Ljóst er að tilfærsla yfir í rafmagnsbfreiðar mun einnig hjálpa okkur þegar kemur að grænum skrefum embættisins og töluverður sparnaður sem verður með tilfærslu yfir í rafmagn.