Þegar sex vikur eru eftir á þessu ári eru nýskráningar fólksbifreiða alls 12.010. Á sama tíma á síðasta ári voru þær 9.137 þannig aukningin á milli ára nemur 31,4%. Bifreiðar til almennrar notkunar eru tæp 54% og til ökutækjaleiga 46% af því er fram kemur í tölum frá Bílgreinasambandinu.
Nýskráningar í nýorkubílum er um 80% og um 20% í jarðefnaeldsneytisbílum. Þegar tölur eru nánar skoðaðar eru nýskráningar í hreinum rafbílum orðnar alls 4.471 sem er rúm 37% hlutdeild á markaðnum.
Hybrid-bílar koma í öðru sæti með 2.682 bifreiðar sem er 22,3% hlutdeild. Tengiltvinnbílar eru í þriðja sætinu með 2.493 nýskráningar og 20,8% hlutdeild. Það sem af er árinu eru nýskráningar í bensínbílum 1.216 og í dísilbílum 1.148.
Í einstökum bílamerkjum er KIA með flestar nýskráningar, alls 1.815. Toyota er í öðru sæti með 1.452 bifreiðar og Tesla er í þriðja sæti með 1.334 bifreiðar.







