Rafbílamarkaðurinn í Evrópu hefur verið í miklum umskiptum á þessu ári. Þótt vöxturinn hafi hægst eitthvað tímabundið vegna niðurfellingar opinberra hvata í stórum löndum, sérstaklega í Þýskalandi og víðar reyndar, er almenn markaðshlutdeild rafbíla að aukast og staðan er orðin áhugaverð og um leið samkeppnishæfari.
Tesla Model Y söluhæsti rafmagnsbíllinn
Söluhæsti hreini rafbíllinn í Evrópu árið 2025 verður að öllum líkindum Tesla Model Y eins og sölutölur sýna. Tesla Model Y heldur áfram að njóta mikilla vinsælda vegna samsetningar af tækni, drægni og vörumerkjaímynd. Tesla hefur verið drifkrafturinn í aukningu rafbíla en staðan er orðin mun minna ráðandi en áður var.
Framtíðarsýn rafbílamarkaðarins í Evrópu er björt að mati bílasérfræðinga, en þó er hún ójöfn eftir löndum. Markaðurinn í Austur Evrópu á nokkuð í land en fer vaxandi engu að síður. Tveir meginþættir munu ráða ríkjum á næstunni. Annars vegar hertar CO2-reglur Evrópusambandsins en þar standa framleiðendur frammi fyrir hertum markmiðum um kolefnisútblástur árið 2025 og 2026. Þetta mun neyða þá til að auka sölu rafbíla til að forðast háar sektir sem ýtir undir meiri samkeppni og lægri verð.
Hins vegar er mikilvægasta þróunin sú er koma fjölda nýrra, ódýrari rafbíla inn á markaðinn. Þar á meðal eru nýjar gerðir frá evrópskum framleiðendum eins og Renault 5 og minni bílar frá Volkswagen Group, sem og sífellt vaxandi innreið kínverskra framleiðenda á borð við BYD, sem leggja áherslu á verð og gæði í samkeppni við hefðbundna evrópska risa.
Kínverskir framleiðendur ógna hefðbundnum evrópskum vörumerkjum
Kínverskir framleiðendur eru í auknum mæli að setja mark sitt á Evrópumarkaðinn og eru farnir að ógna hefðbundnum evrópskum vörumerkjum. Þetta er ekki lengur spurning um hvort þeir komi, heldur hversu hratt þeir stækka.







