Hlutfall hreinna rafbíla 70% í Danmörku 2025

Lestími: < 1 mín

Yfir 80 prósent nýrra bíla í Danmörku í desember voru rafbílar og er það hæsta hlutfallið í einum mánuði frá upphafi. Þar með endar árið 2025 með tæplega 70% hlutfall hreinna rafbíla. Heildarsala bíla jókst einnig og Skoda Elroq var söluhæsti bílinn, alls 10.623 bifreiðar. Volkswagen ID varð í öðru sæti með 9.867 eintök og Tesla Model Y í þriðja sæti með 7.672 eintök.

Bílakaupendur velja rafbíla í auknu mæli og hlutfallið fer ört hækkandi. Sala nýrra rafbíla jókst jafnt og þétt allt árið 2025, úr 64% í janúar, og árinu lauk með afgerandi meti. 81 prósent allra nýrra bíla í desember ganga fyrir rafmagni. Fyrir árið í heild náði hlutfallið 68,5%.

Heildarsala fólksbíla jókst

Þetta sýna árstölur frá bilstatistik.dk, sem sýna einnig að heildarsala fólksbíla jókst um 7% og nam 184.600 bílum. Rafbílar einir og sér voru 126.500, sem er marktækur vöxtur upp á 42% frá árinu 2024.

„Desember var mánuður metanna. Með 14.955 nýskráða rafbíla setti mánuðurinn met, og auk þess að vera 81% af heildarsölunni, náði hlutfallið meðal einstaklinga (einkasölu) alveg upp í 93%, sem er sömuleiðis met,“ segir Ilyas Dogru, hagfræðingur hjá  Félagi danskra bifreiðaeigenda.

Danmörk fast á hæla Noregs

Með þessari gífurlegu rafbílasölu er Danmörk fast á hæla Noregs, sem venjulega er haldið á lofti sem fyrirmynd á heimsvísu. Það var ekki fyrr en árið 2024 sem Noregur, eftir langan aðdraganda, náði 86% hlutfalli.

„Búist er við að árið 2026 verði enn líflegra fyrir rafbíla með fjölmörgum nýjum gerðum á leiðinni og þá ekki síst fyrir áframhaldandi harðri samkeppni um viðskiptavini,“ segir Ilyas Dogru.

Deila grein: