Innflutningur á amerískum rafknúnum pallbílum eykst hratt

Lestími: < 1 mín

Innflutningur á amerískum rafknúnum pallbílum í flokki vörubifreiða N2 hefur tekið stórt stökk á árinu. Á síðasta ári var enginn slíkur bíll fluttur til landsins, en það sem af er þessu ári hafa 25 ökutæki verið skráð hér á landi. Gera má ráð fyrir að sú tala hækki enn frekar á næstu mánuðum, þar sem nokkur fjöldi bíla af þessari gerð er sagður á leiðinni hingað til lands.

Vörubifreiðar í N2-flokki eru skilgreindar sem ökutæki með leyfða heildarþyngd yfir 3.500 kílógrömm. Umræddir pallbílar hafa eigin þyngd nálægt fjórum tonnum og heildarþyngd sem nemur um eða yfir fimm tonnum.

Helsta skýringin á aukningunni er nýtt styrkjakerfi Umhverfis- og orkustofnunar sem tók gildi í janúar. Kerfið býður allt að fimm milljóna króna styrk til kaupa á vöru- og hópbifreiðum, eða 33% af kaupverði, eftir því hvort lægra er.

Stærri rafmagnspallbílar flokkast sem vörubifreiðar í N2-flokki vegna mikillar þyngdar og falla því undir styrkjakerfið. Eitt af skilyrðum fyrir styrkveitingu er að einstaklingar eða fyrirtæki í atvinnurekstri standi að baki kaupunum, og að ökutækin leysi jarðefnaeldsneytisbíla af hólmi. Ekki er gerð krafa um hversu lengi bifreiðin þarf að vera í notkun áður en hún er seld áfram.

Markmið styrkjanna er að flýta orkuskiptum í atvinnulífinu og draga þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Nánari upplýsingar um styrkina má finna hér.

Deila grein: