Sala á nýorkubílum fari yfir 50% á heimsvísu árið 2030

Lestími: < 1 mín

Þrátt fyrir hægari vöxt á sumum mörkuðum árið 2024 er heildarmyndin sú að bílaframleiðendur sjá fyrir sér verulegan vöxt í sölu rafmagnsbíla á næstu fimm árum eða fram til ársins 2030.

Flestir stóru bílaframleiðendurnir gera ráð fyrir að hreinir rafmagnsbílar (BEV) og tengiltvinnbílar (PHEV) muni ná miklu hærri markaðshlutdeild. Sumir spá að salan nálgist eða fari yfir 50% af allri nýrri bílasölu á heimsvísu árið 2030.

Með aukinni samkeppni muni verð á rafbílum lækka

Flestir bílaframleiðendur eru að hefja framleiðslu á tugum nýrra rafbílategunda, sérstaklega í vinsælum stærðarflokkum eins og smærri jeppum og á lægra verði en þekkst hafa áður. Með aukinni samkeppni, sérstaklega frá kínverskum framleiðendum er gert ráð fyrir að meðalverð á rafbílum lækki.

Kína er nú þegar stærsti rafbílamarkaður heims og mun halda þeirri stöðu. Mikil framleiðslugeta, öflugir innlendir framleiðendur  og sterkur stuðningur stjórnvalda við rafvæðingu knýr áfram mjög öran vöxt.

Strangar losunarreglur knýja fram hraðari umskipti

Strangar losunarreglur ESB (CO2), og bann við sölu á nýjum bensín- og dísilbílum frá 2035, mun knýja fram hröð umskipti. Lönd eins og Noregur, Þýskaland, Bretland og Frakkland verða áfram í fararbroddi. Ríkisstyrkir eins og í Bandaríkjunum veita skattaívilnanir fyrir framleiðslu og kaup á rafbílum sem mun auka eftirspurn verulega.

Vöxturinn verður hægari í Suð-austur Asíu, Afríku og Suður- Ameríku vegna takmarkaðra innviða (hleðslustöðva), hærra kaupverðs rafmagnsbíla og þess að kaupmáttur almennings er lægri. Tengiltvinnbílar (PHEV) og léttari Hybrid-bílar eru líklegir til að ná meiri vinsældum á þessum svæðum áður en fullkomin rafvæðing nær fótfestu.

Deila grein: