Framkvæmdir um Ölfusá ganga vel

Lestími: < 1 mín

Framkvæmdir við Hringveg (1) um Ölfusá ganga vel. Nýverið var steyptur landstöpull nýrrar Ölfusárbrúar. Unnið er að mörgum verkþáttum samtímis.Í byrjun desember var unnið  við allar fjórar undirstöður nýrrar brúar yfir Ölfusá. Lokið var við uppslátt og járnabindingu landstöpuls austan við ána og hann steyptur aðfaranótt fimmtudagsins 11. desember. Hafinn er uppsláttur fyrir undirstöðu millistöpuls við austurbakka árinnar. Í Laugardælaeyju er unnið við jarðvinnu fyrir undirstöðu turnsins sem þar mun rísa af því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Á vesturbakka árinnar er búið að ljúka steypu á undirstöðu landstöpuls

Á vesturbakka árinnar er búið að ljúka steypu á undirstöðu landstöpuls og uppsláttur fyrir tæknirými stöpulsins er hafinn. Vestan við Ölfusá er einnig unnið við fergingar vegstæðis yfir Hellismýri á um 700 metra löngum kafla í átt að Biskupstungnabraut. Einnig er unnið við tilfærslu lagna skammt austan við hringtorgið á Biskupstungnabraut. Framleiðsla á stálvirki brúarinnar í verksmiðju Norvik í Póllandi er komin á fullt skrið.

Austan við Selfoss er unnið að byggingu brúar sem reist verður yfir nýjan hluta Hringvegar. Vegtenging verður þaðan annars vegar að hringtorginu austan við Selfoss og hins vegar að golfvelli Selfoss og Laugardælum norðan við Hringveg. Búið er að ljúka uppsteypu stöpla brúarinnar og vinna við undirslátt brúardekksins er hafin.

Unnið er við jarðvegsskipti, uppúrtekt og fyllingu frá Laugardælavegi, austur fyrir nýju vegbrúna og að núverandi Hringvegi.

Á verksvæðinu um 40 starfsmenn á vegum verktaka

Í dag starfa á verksvæðinu um 40 starfsmenn á vegum verktaka auk eftirlits- og mælingamanna. Einnig starfa við framkvæmdina stálsmiðir frá Póllandi, hönnuðir, fageftirlitsmenn, ráðgjafar og umsjónarmenn framkvæmdarinnar á vegum Vegagerðarinnar.

Deila grein: