Framkvæmdir við verkið Hringvegur (1) um Ölfusá hafa gengið vel í sumar. Unnið er að fyllingum við undirstöður bráðabirgðabrúar í Efri-Laugardælaeyju, undirbúningur fyrir mislæga vegbrú við austurenda framkvæmdanna er kominn vel á veg og verktakinn er að ljúka aðstöðusköpun á svæðinu að því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.
40 metra löng bráðabirgðabrú
Í júlí var byrjað á uppsetningu 40 metra langrar bráðabirgðabrúar yfir í Efri-Laugardælaeyju en brúin þjónar lykilhluverki í að hægt sé að hefjast handa við aðalundirstöður nýju brúarinnar í eyjunni. Öll nauðsynleg tæki og tól verða flutt yfir brúna. Varnargarður og vinnuvegur hefur verið gerður frá austurbakka árinnar að bráðabirgðabrúnni og þessa dagana er unnið við frágang fyllinga að brúnni úti í eyjunni. Áætlað er að opna fyrir vinnuumferð yfir brúna síðar í þessari viku.
Unnið er við jarðvegsskipti í nýja vegstæðinu austan árinnar frá bakka Ölfusár og að fyrirhuguðum mislægum vegamótum við Hringveg austan við Selfoss. Verkið gengur vel, búið er að ljúka uppúrtekt á þessum kafla, sem þýðir að búið er að fjarlægja allt efni úr vegstæðinu. Fylling er komin vel af stað og vinnu við undirstöður vegbrúarinnar er að ljúka. Þá er uppsláttur á stöplum vegbrúarinnar hafinn.
Sprengingum á klapparhafti lokið
Vestan við ánna hafa laus jarðefni verið hreinsuð af klöppinni þar sem landstöpull Ölfusárbrúarinnar verður og er vinna við undirstöður stöpulsins hafin. Þá er búið að ljúka sprengingum á klapparhafti sem var í vegstæðinu skammt vestan við ána. Vestan við haftið er unnið við fergingu vegstæðisins yfir Hrísmýri á um 700 metra löngum kafla í átt að hringtorginu við Biskupstungnabraut.
Aðalverktaki framkvæmdarinnar er ÞG-Verk og hefur hann samið við pólska verksmiðju um framleiðslu stálvirkis Ölfusárbrúar og er efnisútvegun þegar hafin. Verktakinn vinnur nú að aðstöðusköpun austan árinnar og er hún langt komin. Unnið er að uppsetningu svefnskála við starfsmenn.
Áætlað er að um 60 til 70 manns komi að hönnun vega og brúa
Í dag starfa um 25 starfsmenn við framkvæmdina á vegum verktaka auk eftirlits- og mælingamanna. Einnig starfa við framkvæmdina hönnuðir, fageftirlitsmenn, ráðgjafar og umsjónarmenn framkvæmdarinnar á vegum Vegagerðarinnar. Áætlað er að um 60 til 70 manns komi að hönnun vega og brúa og eru þeir staðsettir í að minnsta kosti fjórum löndum, Finnlandi, Danmörku, Noregi og Íslandi.
Ný Ölfusárbrú verður 330 metra löng stagbrú með 60 metra háum turni í Efri-Laugardælaeyju. Verklok eru áætluð í október 2028.