Hroðvirknisleg vinnubrögð í fjárlagafrumvarpi

Lestími: 3 mín

FÍB fylgist sérstaklega með þeim þáttum í fjárlagafrumvarpi og ríkisrekstri sem varða skatta á ökutæki, uppbyggingu og viðhald samgangna á landi og loftslagsmál. Fyrsta eigin frumvarp núverandi ríkisstjórnar var í byrjun september. Í því eru furðulegar missagnir og boðaðar eru verulegar skattahækkanir á umferð og ökutæki án nokkurra skýringa. Undir eru verulegir hagsmunir neytenda og fyrirtækja vegna ökutækjanotkunar og bílgreinin er skilin eftir í óvissu um hvað sé framundan.

Fjórar vikur að fá svar

Frá því í byrjun september hefur FÍB ítrekað leitað skýringa frá fjármálaráðuneytinu. Óskað var upplýsinga um þann mikla mun sem væri á áætluðum tekjum af nokkrum tekjuliðum sem snerta akstur og umferð í fjárlögum fyrir 2025 samanborið við horfur varðandi þróun tekna í nýja fjárlagafrumvarpinu fyrir 2026. 

Fjórum vikum síðar (25. september 2025) bárust loks skýringar frá skrifstofu skattamála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þar segir orðrétt:

“Þegar talnabálki fjárlaga var lokað í sumar stóð frumvarp um kílómetragjald þannig að gert var ráð fyrir að það tæki gildi 1. október. Því er í tekjuáætlun fyrir árið 2025 miðað við að þau gjöld sem stendur til að fella út með frumvarpinu um kílómetragjald falli út þann 1. október 2025 en hins vegar að kílómetragjaldið taki einnig þá gildi. Í sumar varð ljóst að sú tímasetning gengi ekki eftir og þess vegna frestast breytingar á innbyrðis skiptingu gjaldanna. Fyrirhugað er að leggja frumvarpið aftur fram og er þá viðbúið að gildistíminn breytist og jafnframt tekjuáhrif ársins 2025. Það hefur ekki nein áhrif á tekjur ársins 2026 þar sem gert er ráð fyrir að nýtt fyrirkomulag gjaldtöku muni þá hafa tekið gildi.”

Í byrjun júní lá fyrir að frumvarp um kílómetragjald yrði ekki samþykkt fyrir þinglok í júlí. Fjárlagafrumvarpið var lagt fram rúmlega tveimur og hálfum mánuðum síðar. Þetta er ekki til eftirbreytni og óvönduð stjórnsýsla.

Skattahækkun á bak við tjöldin

Í sömu fyrirspurn til fjármálaráðuneytisins óskaði FÍB eftir skýringu á mikilli hækkun vörugjalda af ökutækjum sem áætlað væri að skili auknum tekjum í ríkissjóð 2026 upp á 7.950 milljónir króna miðað við horfur um tekjur á yfirstandandi ári. Svarið frá skrifstofu skattamála er eftirfarandi:

“Í fjármálaáætlun 2026-2030, sem Alþingi samþykkti í sumar, voru lögð fram áform til að bregðast við þeim mikla samdrætti sem hefur orðið í tekjuöflun í samgöngum, m.a. vegna tækniframfara og orkuskipta. Frá árinu 2023 hefur verið unnið að því að tekjurnar nái 1,7% af VLF. Skref í þá átt er breyting á vörugjöldum við innflutning ökutækja en nánari útfærsla hennar verður kynnt á næstunni.”

FÍB kom því á framfæri við ráðuneytið að það væri sérlega alvarlegt að ekki væri gerð grein fyrir um 65% áætlaðri hækkun á tekjum ríkissjóðs af vörugjöldum ökutækja á komandi ári samanborið við áætlaðar tekjur í ár. Svona lausatök og skortur á upplýsingum í frumvarpinu væru stjórnvöldum til vansa. Það stefnir í stórhækkun álagðra vörugjalda af ökutækjum, ekki nema að ríkisstjórnin búist við 65% aukningu í bílasölu.

Stefnir í milljón króna hækkun á verði fjölskyldubílsins

Miðað við svör fjármálaráðuneytisins er von á breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum. Í dag er lagt sérstakt vörugjald sem nemur 5% á öll ökutæki óháð orkugjafa og koltvísýringslosun. Síðan leggst vörugjald á miðað við skráða losun koltvísýrings og getur samanlagt hæst farið í 65% ofan á innkaupsverð og flutningsgjald

Það er ekki óvarlegt að áætla að sérstaka vörugjaldið á alla bíla óháð orkugjafa og koltvísýringslosun geti hækkað um 10% og verði 15%. Um næstu áramót er einnig áformað að lækka rafbílastyrkinn frá Loftslags- og orkusjóði vegna kaupa á nýskráðum rafbíl úr 900 þúsund krónum niður í 500 þúsund krónur. Nái þessar breytingar á vörugjaldi og rafbílastyrk fram að ganga mun það hækka ódýran rafbíl til neytenda um hátt í eina milljón króna. Hækkunin verður síðan stighækkandi miðað við hærra innkaupsverð.

Hækkanir sem vinna gegn allri skynsemi

Spyrja má hvort stjórnvöld hafi metið áhrif þessara skattahækkana og lækkunar styrkja á útlosun koltvísýrings og þar með neikvæð loftslagsáhrif frá samgöngum á landi. Að ekki sé talað um að þetta er bein aðför að hag heimilanna. Fjölskyldubíllinn vegur mjög þungt í vísitölu neysluverðs þannig að áætluð hækkun bílverðs mun þyngja rekstur heimila og hafa neikvæð áhrif á kostnað fyrirtækja vegna bifreiðanotkunar og  flutninga. Allt seytlar þetta út í verðlag með tilheyrandi verðbólguþrýstingi.

Önnur hlið á þessum gerræðislegu vinnubrögðum er áhrifin á markaðinn í heild. Fyrirliggjandi upplýsingar um vörugjaldshækkun og lækkun rafbílastyrkja mun stórauka innflutning á ökutækjum til áramóta. Miklar annir munu verða í tollafgreiðslu og skráningu bifreiða síðustu mánuði ársins. Hefur það verið undirbúið með viðeigandi ríkisstofnunum?  Þetta mun skapa ríkissjóði verulegar aukatekjur í ár en að sama skapi draga verulega úr áætluðum tekjum fyrir komandi ár. Reiknimeistarar fjármálaráðuneytisins virðast ekki hafa gefið þessu neinn gaum.

Skapar mikla óvissu fyrir bílgreinina

Annað veigamikið atriði er áhrifin á fyrirtæki í bílgreininni. Bílaumboð eru að reyna á þessum óvissutímum að undirbúa innkaupaáætlanir og tímasetja innflutning fyrir árið 2026. Bílaleigur og stórir flotarekendur eru á sama hátt að reyna að átta sig á rekstrarlegum áhrifum hækkunar vörugjalds og lækkunar raforkustyrks á sinn rekstur. Eitt er að búa við það óvissuástand sem ríkir í fjármálum á íslandi en til viðbótar er óþolandi að stjórnvöld skapi verulega óvissu fyrir heimili og rekstraraðila með óvönduðum vinnubrögðum.  

Þessi framsetning í fjárlagafrumvarpinu er óvönduð stjórnsýsla og framkvæmdavaldinu ekki til sóma.

Deila grein: