Húsfyllir var á opnum kynningarfund í Klébergsskóla á Kjalarnesi í vikunni en valkostir um legu Sundabrautar eru nú til kynningar. Tilefni fundarins var að umhverfismatsskýrsla vegna Sundabrautar og drög að aðalskipulagsbreytingu eru komin í Skipulagsgáttina.
Húsfyllir var á fundinum og góð þátttaka í umræðum sem fram fóru eftir kynningar. Guðmundur Valur Guðmundsson, fulltrúi Vegagerðarinnar og formaður verkefnisstjórnar um undirbúning Sundabrautar, kynnti verkefnið og efni umhverfismatsskýrslunnar á fundinum. Andri Gunnarsson og Ragnhildur Gunnarsdóttir, frá verkfræðistofunni EFLU, sem er ráðgjafi við gerð umhverfismatsskýrslunnar, fjölluðu um vegtengingar og afmarkaða þætti umhverfismatsins og Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, fór yfir samspil framkvæmdarinnar og aðalskipulags borgarinnar.
Að spurningum loknum gafst fólki tækifæri til að rýna gögnin í samtali við sérfræðinga á nokkrum stöðvum í salnum og kynna sér málið nánar.
Spurt um veggjald og hjólastíga
Á fundinum var farið yfir þá kosti við leiðarval Sundabrautar sem til umfjöllunar eru í umhverfismatskýrslunni; leiðir há- eða lágbrúar yfir Kleppsvík, eða göng undir, sem og leiðarval áfram og yfir á Kjalarnes. Þá var einnig farið yfir hvernig framkvæmdin myndi bæta flæði umferðar á höfuðborgarsvæðinu og samspil við fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur.
Á fundinum höfðu sumir íbúa á Kjalarnesi á orði að þeir hefðu beðið lengi eftir Sundabraut, sem hafi verið ein af forsendum sameiningar við Reykjavík árið 1998. Þá var spurt út í fyrirhugaða gjaldtöku, en ekki hefur enn verið ákveðið hvernig hún verður útfærð. Sömuleiðis var spurt hvort hægt yrði að hjóla úr miðbænum upp á Kjalarnes og því svarað að gert væri ráð fyrir blönduðum göngu- og hjólastíg meðfram allri brautinni. Gestir höfðu sumir enn fremur orð á því að þeir færu fróðari og ánægðari heim. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér:
Megin sjónarmið Reykjavíkur um framkvæmdina
- Bæti samgöngur fyrir alla ferðamáta; fyrir akandi, almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi.
- Að neikvæð áhrif á nálæga íbúðarbyggð og tengsl milli hverfa verði lágmörkuð.
- Hafi sem minnst áhrif á hafnarstarfsemi og leiði til hagfelldrar þróunar hafnarsvæðanna til lengri framtíðar.
- Að mannvirki falli vel að landslagi, náttúru og byggð og staðið verði að metnaði við hönnun þeirra útfrá fagurfræðilegum sjónarmiðum.
- Gatnamannvirki, brúarlausnir og landfyllingar verði með þeim hætti að áhrif á lífríki verði lágmörkuð.
- Að leitað verði leiða til að lágmarka umfang og landþörf stofnbrautar og gatnamannvirkin rýri sem allra minnst verðmæt útivistar- og náttúrusvæði, svo og framtíðar uppbyggingarsvæði.