Umferðin í ágúst á höfuðborgarsvæðinu jókst einungis um hálft prósent frá sama mánuði fyrir ári síðan. Sögulega séð er þetta lítil aukning í ágúst. Útlit er fyrir að umferðin á höfuðborgarsvæðinu um lykilmælisnið Vegagerðarinnar aukist um 2,5 prósent sem er áþekkt meðaltalsaukningu á ári að því er fram kemur í tölum frá Vegagerðinni.
Milli mánaða 2024 og 2025
Umferðin um stofnvegakerfi höfuðborgarsvæðisins reyndist aðeins 0,5% meiri, í nýliðnum ágúst, borið saman við sama mánuð á síðasta ári, ef marka má þrjú lykil mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu.
Umferð jókst lítillega í mælisniði á Hafnarfjarðarvegi (0,1%), dróst saman á Reykjanesbraut (-0,5%) en jókst á Vesturlandsvegi (1,8%).
Meðalaukning umferðar, í umræddum mælisniðum, í ágúst mánuði, frá árinu 2005, er um 2,4% þ.a.l. telst núverandi aukning frekar lítil. Nú hefur umferð aukist um 1,9%, frá áramótum, en á síðasta ári hafði umferðin aukist um 3,5% á sama tíma, miðað við árið 2023.
Mest ekið á fimmtudögum – minnst á sunnudögum
Í nýliðnum mánuði var mest ekið á fimmtudögum en minnst á sunnudögum. Hlutfallslega jókst umferð mest á sunnudögum (4,9%) en dróst saman um 1,2% á föstudögum, sem jafnframt var eini vikudagurinn þar sem umferð dróst saman.
Umferðin á Hringveginum í ágúst mánuði stóð í stað
Umferðin á Hringveginum í nýliðnum ágúst mánuði stóð nánast í stað en hún var örlítið minni en í ágúst fyrir ári síðan. Umferðin frá áramótum hefur aukist um eitt prósent sem er mjög lítið í sögulegu samhengi. Nú er útlit fyrir að umferðin í ár aukist mjög lítið eða jafnvel að það verði samdráttur. Áætlunin gerir ráð fyrir 0,5 prósenta aukningu.
Umferð eftir vikudögum
Frá áramótum er mest ekið á föstudögum en minnst á laugardögum. Hlutfallslega hefur umferð aukist mest á mánudögum, eða um 2,3%, en 0,1% samdráttur mælist í umferð á fimmtudögum að því er fram kemur í tölunum.