Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við mjög slæmri færð á öllu höfuðborgarsvæðinu hvort sem þar er innan hverfa eða á stofnbrautum. Akbrautir eru enn ekki fullruddar og það má reikna með miklum töfum í morgunumferðinni í dag. Ökumenn þurfa að sýna mikla þolinmæði.
Eigendur ökutækja sem eru enn með ökutæki sín á sumarhjólbörðum eru vinsamlegast beðnir um að fara EKKI af stað út í umferðina.
„Viðbragðsaðilar eru í mikilli hættu þegar þeir eru að reyna að aðstoða ökumenn sem eiga í erfiðleikum vegna þess að ökumenn aka ekki varlega í þessari færð,” segir einnig í tilkynningunni.
„Lögregla ítrekar til ökumanna um að sýna þolinmæði og tillitsemi í umferðinni meðan þetta ástand varir.”
Uppfært kl: 11:28
Umferð er orðin lítil á Vesturlandsvegi og farin að léttast á Miklubraut að Reykjavík. Miklar tafir eru enn á Kringlumýrarbraut og Hafnarfjarðarvegi en raðir ná enn í Garðabæinn. Ástæðan er vegna þess að vanbúin ökutæki komast ekkert áfram í Fossvoginum nærri aðrein að Bústaðavegi.
Miklar örtraðir eru við hjólbarðaverkstæðin í borginni og mjög langar biðraðir eru við þessi verkstæði og það er farið að valda töfum í umferðinni þ.á.m. á stofnbrautum. Lögregla er að hefja vinnu við að vísa fólki frá þar sem raðir ná út á stofnbrautir.
Lögreglan beinir sjónum sínum að stofnbrautakerfinu og er að leggja áherslu á að halda því opnu. Þegar þessi orð eru rituð þá eru tæki að fara á Kringlumýrarbraut við Bústaðaveg til að fjarlægja vanbúin ökutæki sem stöðva stóran part af þeirri umferð sem þar er á leið til Reykjavíkur. Þessi ökutæki valda því að bílaraðir ná enn til Garðabæjar. Einnig er verið að kalla til dráttarbílaþjónustur til að fjarlægja þessi ökutæki af stofnbrautunum.







