Mörg­um lykil­verk­efnum lokið við nýjan Arnarnesveg

Lestími: < 1 mín

Framkvæmdir við nýjan Arnarnesveg, milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar, ganga vel og fjölmörgum lykilverkefnumer nú lokið. Ný göngu- og hjólabrú yfir Dimmu er tilbúin og opin fyrir umferð. Einnig hafa nokkrir kaflar á Breiðholtsbraut verið malbikaðir, sem og göngu– og hjólastígar í Elliðaárdal. Þá hefur ný brú yfir Breiðholtsbraut verið steypt, sem er stærsta einstaka mannvirkið í verkinu. Áætluð verklok Arnarnesvegar og tengdra framkvæmda eru í nóvember 2026. 

Ný akbraut, stígar og brú tekin í notkun  

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að frágangi nýrrar akbrautar við Breiðholtsbraut og nú er búið að malbika vegkaflann frá Jaðarseli að Elliðaám. Einnig er búið að malbika neðri malbikslög á Arnarnesvegi í Elliðaárdal.  

 Þá er malbikun á göngu- og hjólastígum í Elliðaárdal norðan Breiðholtsbrautar lokið og þeir komnir í notkun. Nýja göngu- og hjólabrúin yfir Dimmu, sem er hluti Elliðaáa, er fullfrágengin og búið að opna fyrir umferð. Brúin er kærkomin samgöngubót fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og tengir vel saman stígakerfi í Elliðaárdal. 

Framkvæmdir við brýr halda áfram 

Ný vegbrú yfir Breiðholtsbraut var steypt 8. nóvember síðastliðinn. Alls fóru 1.650 rúmmetrar af steypu í mannvirkið, eða sem samsvarar 205 steypubílum. Steypuvinnan gekk mjög vel en þetta er eitt umfangsmesta steypuverkefnið á árinu. Nú stendur yfir frágangur kantbita ofan á brúnni og byrjað er að fjarlægja undirslátt brúardekksins á norður-akbraut. Bílaumferð fer nú um suður-akbraut undir undirslátt brúarinnar. Samtímis er unnið við frágang hljóðmana við Arnarnesveg og Breiðholtsbraut. 

Deila grein: