Ný samgönguáætlun er kynnt undir yfirskriftinni „Ræsum vélarnar“ og hefur það að meginmarkmiði að laga vegi, hefja stórframkvæmdir og byrja aftur að bora jarðgöng á Íslandi.
Í nýrri samgönguáætlun fyrir árin 2026-2040 sem Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra kynnti í dag er lögð áhersla á kraftmiklar og arðsamar framkvæmdir um land allt sem efla umferðaröryggi, greiða fyrir umferð, stytta tengingar milli byggða og atvinnusvæða og bæta lífsgæði íbúa.
Framlög til viðhalds vega munu stóraukast í nýrri samgönguáætlun
Ráðherra sagði á fundinum í morgun að framlög til viðhalds vega munu stóraukast í nýrri samgönguáætlun. Síðustu ár hafa framlög verið um 12-13 milljarðar króna á ári en hækka í 17,5 milljarða árið 2026 og 20 milljarða á ári frá og með 2027. Þetta jafngildir helmingshækkun til viðhalds vega og með því er uppsöfnun innviðaskuldar í vegakerfinu stöðvuð.
Ríkisstjórn samþykkti í sumar að leggja þrjár milljarða til viðbótar í viðhald vega á landsbyggðinni árið 2025 sem jafngilti 25% aukningu. Framkvæmdir hafa þegar skilað miklum árangri.
Fjárveiting til vetrarþjónustu verður aukin
Þessu til viðbótar verður vetrarþjónusta á vegum fjármögnuð til að geta veitt nauðsynlega þjónustu hverju sinni. Fjárveiting til vetrarþjónustu á fyrsta tímabili áætlunarinnar verður aukin um tæpa 14 milljarða kr. frá tillögu að samgönguáætlun haustið 2023 að því er fram kemur í tilkynningu.
Öryggi í samgönguinnviðum er mikilvægasta markmið hverrar samgönguáætlunar. Áfram verður unnið að því markmiði að útrýma einbreiðum brúm á Hringveginum og gert er ráð fyrir að þetta markmið náist á tímabili samgönguáætlunar. Einbreiðum brúm mun raunar fækka strax um þrjár þegar brú yfir Hornafjarðarfljót opnar snemma árs 2026. Einnig er lögð mikil áhersla á verkefni þar sem akstursstefnur verða aðskildar á fjölförnum leiðum, m.a. út frá höfuðborgarsvæðinu. Loks verður haldið áfram að fækka malarvegum en með fjárveitingum á tímabili samgönguáætlunar er hægt að leggja bundið slitlag á 460 km af vegum.
Framkvæmdir við Sundabraut hefjast 2027 og lýkur 2032
Áfram verður unnið að fjölmörgum verkefnum í takt við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Meðal helstu verkefna sáttmálans eru uppbygging innviða Borgarlínunnar, Miklubrautargöng, stokkar á Sæbraut og í Garðabæ og Reykjanesbraut milli Setbergs og Álftanesvegar. Þá munu framkvæmdir við Sundabraut hefjast 2027 og opna 2032
,,Þetta er gleðidagur“
„Þetta er gleðidagur. Það eru stór pólitísk tíðindi að nú hafi verið lögð fram samgönguáætlun sem er fjármögnuð – ólíkt fyrri samgönguáætlun þar sem forgangslisti jarðganga og annarra stærri framkvæmda var í raun ófjármagnaður óskalisti. Og það er viðeigandi að yfirskriftin á kynningu innviðaráðherra sé „Ræsum vélarnar“, sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.
,,Mikilvæg skref stigin með þessum óformum“
„Við erum að stíga mikilvægt skref með þessum áformum. Sérstakt innviðafélag getur stutt við innleiðingu nýrra og hagfelldari leiða, bæði í fjármögnun og stjórnun stærri framkvæmda. Ef vel tekst til getur það líka orðið til þess að flýta uppbyggingu í samgöngum,“ segir Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.







