Trefjaplast notað í nýja brú

Lestími: 2 mín

Við endurnýjun brúarinnar yfir Kaldá hjá Snorrastöðum í Hnappadal var notuð ný byggingaraðferð, þar sem öll yfirbyggingin er gerð úr trefjaplasti. Gamla brúin var rifin um miðjan september og í kjölfarið hófst kapphlaup við tímann svo ný brú yrði tilbúin fyrir veturinn. Það tókst vel því nýja brúin var tekin í notkun í byrjun desember að því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Brúin yfir Kaldá var byggð árið 1958 og hönnuð fyrir hámarksvagnþunga upp á 18 tonn. Hún var 30 m að lengd en aðeins 2,8 m á breidd, stálbitabrú með timburdekki og -handriði. Brúin stóð á fjórum stöplum, þ.e. tveimur steyptum millistöplum og tveimur endastöplum úr timburokum (símastaurum).

Hún þjónaði sem heimreið að Snorrastöðum en þar er rekið burðugt kúabú með hátæknifjósi. Á brúnni blandast umferð frá starfseminni og gangandi vegfarenda á leið inn í Eldborg, sem þúsundir ferðamanna heimsækja árlega. Kominn var tími á endurnýjun þar sem brúin var úr sér gengin og orðin hrörleg, enda barn síns tíma.

Varanleg og hagkvæm lausn

Undirbúningur framkvæmda tók rúm tvö ár. Vegagerðin setti það markmið að útfæra varanlega lausn sem uppfyllti nútímakröfur um burð og öryggi vegfaranda en tæki jafnframt stuttan tíma í uppsetningu á verkstað. Það var m.a. gert til að hvetja verktaka til að finna nýjar og hagkvæmari lausnir í brúargerð og um leið lágmarka hættuna á að samgöngur rofnuðu heim að Snorrastöðum á framkvæmdartíma. Þar sem þetta er eina leiðin að og frá bænum hefði það getað haft slæm áhrif á rekstur búsins.

Boðin var út verkhönnun, framleiðsla og uppsetning á nýrri yfirbyggingu. Hluti af skilmálum útboðsins var knappur verktími en verktakar fengu tvær vikur til að setja upp yfirbyggingu brúarinnar á verkstað.

Tvö tilboð bárust og urðu Trefjar ehf. í samstarfi við hollenska fyrirtækið Fibercore hlutskörpust. Fibercore sérhæfir sig í framleiðslu brúa úr trefjaplasti. Í framhaldinu voru undirritaðir samningar milli Vegagerðarinnar og Trefja þann 5. maí 2025. Verkhönnun lauk í byrjun ágúst en samhliða hannaði verkfræðistofan Efla nýja endastöpla undir brúna.

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar sá um að reisa nýja steypta endastöpla. Undir þá voru reknir átta 12 m langir, steyptir staurar en stöplarnir eru um 3 metra háir með jarðvegsvængjum. Millistöplar eldri brúarinnar voru endurnýttir.

Yfirbyggingin var smíðuð og flutt í heilu lagi frá Rotterdam í Hollandi. Uppskipun fór fram í Þorlákshöfn. Þaðan var hún flutt á verkstað og hífð og fest á stöplana á einum degi, þann 19.11.2025.

Brúardekk úr trefjaplasti

Dekkið á nýju brúnni er smíðað úr trefjaplasti. Um er að ræða nýja aðferð sem í vaxandi mæli hefur verið notuð í brúargerð á meginlandi Evrópu og í Noregi. Yfirbyggingin vegur aðeins um 23 tonn þrátt fyrir að hún sé 22 m löng, 5,3 m breið og skiptist í 3 m breiða akrein og 1,5 m breiðan göngustíg fyrir gangandi vegfarendur.

Nýja brúin var tekin í notkun þann 3. desember sl. eða aðeins tæplega þremur mánuðum eftir að framkvæmdir hófust.

Deila grein: