Unnið verður að því að lækka viðhaldsskuld sem hefur safnast upp í vegakerfinu

Lestími: 3 mín

Daði Már Kristó­fers­son, fjár­málaráðherra, kynnti fjár­laga­frum­varp næsta árs á blaðamanna­fundi í fjár­málaráðuneyt­inu í gær. Nýj­um út­gjöld­um í fjár­laga­frum­varp­inu sé for­gansraðað til verk­efna sem stuðla að ör­yggi fólks, svo sem, í sam­göng­um og víðar.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að 7,5 ma.kr. er varið í fjárfestingar, viðhald og þjónustu á vegakerfinu til að vinna á þeirri bráðu innviðaskuld sem hefur safnast frá hruni. Undir málaflokkinn falla samgöngur í lofti, á láði og legi, þ.á m. flugvellir, vegir, hafnir, vita og sjóvarnir, skipulag og uppbygging samgöngukerfisins og viðhald og rekstur þess.

Starfsemi málaflokksins er í höndum Samgöngustofu, Vegagerðarinnar og Rannsóknar­nefndar samgönguslysa, auk Isavia samkvæmt þjónustusamningi um rekstur og framkvæmdir á flugvöllum og Betri samgangna samkvæmt samningi um samgönguframkvæmdir á höfuðborgar­svæðinu.

Samgöngur séu greiðar, öruggar, hagkvæmar, umhverfislega sjálfbærar

 Meginmarkmið í samgöngustefnu landsins er að samgöngur séu greiðar, öruggar, hagkvæmar, umhverfislega sjálfbærar og þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun. Markmiðin eiga við um alla samgöngumáta en stefna fyrir hvern þeirra birtist í samgöngu­áætlun á hverjum tíma sem lögð er fram þingsályktun fyrir Alþingi.

Samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 er í gildi en unnið er að tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2026–2040 sem gert er ráð fyrir að verði lögð fram á Alþingi á haustþingi 2025.

Undanfarin ár hefur forgangsröðun verkefna á samgönguáætlun tekið mið af arðsemismati á þeim þar sem m.a. er litið til áhrifa á umferðaraöryggi og styttingu ferðatíma og byggðasjónarmiða.

Formenn stjórnarflokkanna kynntu þingmál ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi fyrir hádegi í dag. Þar kom fram að innviðarráðherra leggur fram samgönguáætlun líkt og við var að búast og endurflytur frumvarp um breytingar á lögum um leigubíla. Stofnun innviðafélags er einnig meðal helstu mála á lista ráðherrans, en því er ætlað að sjá um fjármögnun stærri samgönguframkvæmda.

Í töflunni hér fyrir neðan má sjá helstu verkefni sem áformað er að ráðast í á árinu 2026 og hvaða markmið þau styðja við

Helstu verkefni 2026FramkvæmdaraðiliBreyting á fjárveitingu
Markmið 1: Greiðar samgöngur
Unnið verður að því að lækka viðhaldsskuld sem hefur safnast upp í vegakerfinu. Helstu verkþættir á næsta ári eru endurbætur á slitlagi, á burðarlögum og styrking brúa.Vegagerðin4.500 m.kr.
Undirbúningur vegna Sundabrautar heldur áfram. Unnið verður að kynningu umhverfismats, útfærslu valkosta, breytingum á skipulagi auk samráðs við hagaðila. Þá verður hafin vinna við að undirbúa útboðsferil.VegagerðinInnan ramma
 
Markmið 2: Öruggar samgöngur
Áfram unnið að því að auka öryggi á stofnvegum í kringum höfuðborgarsvæðið með aðskilnaði akstursstefna.VegagerðinInnan ramma
Innan ramma
Markmið 3: Hagkvæmar samgöngur
Endurskoðun á tekjuöflun ríkisins af ökutækjum og umferð með það að markmiði að fjármagna stærri samgönguverkefni og jarðgangaáætlun.Innviðaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneytiInnan ramma
Áfram unnið að styttingu leiða á vegum, m.a. með framkvæmdum við Ölfusárbrú og á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit.VegagerðinInnan ramma
Markmið 4: Umhverfislega sjálfbærar samgöngur
Uppbygging samgönguinnviða allra ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við framkvæmdaáætlun samgöngusáttmála. Meðal framkvæmda sem unnið verður að er brú yfir Fossvog, Arnarnesvegur, nýir hjóla- og göngustígar ásamt ýmsum aðgerðum í umferðarstýringu.Innviðaráðuneytið, Vegagerðin, Betri samgöngurInnan ramma
Almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu efldar og samvinna ríkis og sveitafélaga efld með tilkomu sameiginlegs félags um reksturinn.InnviðaráðuneytiInnan ramma
Markmið 5: Jákvæð byggðaþróun
Öflug uppbygging tengivega þar sem áhersla er lögð á að leggja bundið slitlag á malarvegi.VegagerðinInnan ramma

Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2026 er áætluð 72.909,6 m.kr. og hækkar um 9.598,4 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 966,8 m.kr.

Ekki er um miklar breytingar á hagrænni skiptingu innan málaflokksins að ræða; 2.500 m.kr. færast af framkvæmdum á vegakerfinu yfir á rekstur vegna þjónustu á vegakerfinu og er þar um leiðréttingu að ræða frá færslu í gildandi fjármálaáætlun. Einnig færast 10 m.kr. af rekstri Samgöngustofu yfir á fjárfestingu.

Helstu breytingar á fjárheimildum málaflokksins eru eftirtaldar:

  1. Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er fjárheimild málaflokksins aukin um 4.500 m.kr. vegna viðhalds á vegakerfinu, sbr. markmið nr. 3. Helstu verkþættir á næsta ári eru endurbætur á slitlagi, á burðarlögum og styrking brúa.
  2. Fjárheimild málaflokksins er aukin um 2.500 m.kr. til þjónustu á vegakerfinu.
  3. Fjárheimild málaflokksins er aukin um 3.000 m.kr. og er það framlag til Vegagerðarinnar í tengslum við vegagerð vegna uppbyggingu Hvammsvirkjunar.
  4. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 80 m.kr. vegna tímabundinna verkefna sem falla niður í styrkjum til almenningssamgangna.
  5. Fjárheimild málaflokksins er aukin um 500 m.kr. til viðhalds- og nýframkvæmda á vegakerfinu.
  6. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 500 m.kr. en um er að ræða sértækar aðhaldsráðstafanir á framkvæmdir á vegakerfinu og eru þær liður í hagræðingaraðgerðum fyrri fjármálaáætlunar 2025–2029.
  7. Fjárheimild málaflokksins lækkar um 245,3 m.kr. vegna sértækra aðhaldsráðstafana sem færðar eru á þjónustu vega og stofnanir vegna aðhalds í opinberum innkaupum.
  8. Hlutdeild málaflokksins í almennri aðhaldskröfu málefnasviðsins nemur samtals 349,7 m.kr. og er almennt aðhald útfært hlutfallslega á bilinu 1% – 4% af gildandi fjárlögum á verkefni málaflokksins.
Deila grein: