Euro NCAP birtir niðurstöður árekstrarprófana nýrra bíla

Lestími: 2 mín

Evrópska öryggisstofnunin, Euro NCAP, sem er sameign bifreiðaeigendafélaganna í Evrópu hefur birt niðurstöður úr stærstu hópprófun Euro NCAP á nýjum bílum á þessu ári. Alls voru 23 nýjar gerðir metnar óháð af öryggissérfræðingum Euro NCAP áður en nýjar prófanir verða kynntar árið 2026.

Úrvalið inniheldur margvíslegar tegundir bíla, allt frá rafknúnum jeppum og lúxus sportbílum til smærri millibíla og stórra fjölskyldubíla. Ekki færri en 18 gerðir fá fimm stjörnu einkunn, sem er mælikvarði Euro NCAP á framúrskarandi öryggisafköstum og endanleg leiðbeining fyrir neytendur sem vilja velja öruggan bíl. Sérhver bíll er metinn eftir því hversu vel hann verndar fullorðna og börn ef slys ber að höndum, sem og hvernig hann verndar aðra vegfarendur, þar á meðal gangandi vegfarendur og hjólreiðamenn. Í lokaflokki er mæld virkni virkra akstursaðstoðarkerfa bílsins.

Hæstu einkunnirnar

Euro NCAP framkvæmir tvær framanákeyrsluprófanir, hliðarárekstrarprófun og stangarprófun með árekstrarprófunardúkkum af ýmsum stærðum til að meta verndina sem veitt er af uppbyggingu bílsins og öryggisbeltakerfum.

Í þeim 23 bílum sem prófaðir voru náðu níu gerðir 90 prósentum eða hærra. Þar af voru Leapmotor B10, meðalstór rafknúinn jeppi, Mercedes-Benz CLE Coupé, lúxus sportbíll, og Hongqi EHS7, einnig meðalstór rafknúinn jeppi, en allir þrír fengu 93% og fimm stjörnur í heildareinkunn.

Tesla Model Y vakti hrifningu

Auk Leapmotor B10 og Hongqi EHS7 voru sjö aðrar gerðir úr hinum sívinsæla flokki meðalstórra jeppa metnar, þar á meðal Kia EV5, Nissan Qashqai, Škoda Elroq og Enyaq, Subaru Solterra, Toyota bZ4X, og nýlega uppfærð Tesla Model Y. Af þessum bílum vakti hin vinsæla Tesla mestu hrifninguna, fékk 91% fyrir öryggi fullorðinna og 93% fyrir vernd barna. Tesla fékk einnig háa einkunn fyrir akstursaðstoðarkerfi sín og hlaut fimm stjörnur í heildareinkunn.

Volvo EX90 stóð sig sérstaklega vel í flokki stórra jeppa. Þessi sjö sæta rafbíll fékk 92% fyrir vernd fullorðinna farþega, 93% fyrir vernd barna og 86% fyrir öryggisaðstoð. Einnig voru metnir Lucid Gravity og MG MGS9 PHEV en báðir fengu einkunnina 83% fyrir vernd fullorðinna. Gravity skaraði fram úr með öryggiseinkunn barna upp á 93%. Allir þrír fengu fimm stjörnur.

BYD SEAL 6 með framúrskaranmdi akstursaðstoðarkerfi

BYD SEAL 6 fékk 92% einkunn fyrir vernd fullorðinna og framúrskarandi akstursaðstoðarkerfi. Keppinautur hans, BMW 2 Series Gran Coupé, stóð sig vel í heildina en endaði með fjögurra stjörnu einkunn vegna 78% einkunnar fyrir vernd fullorðinna farþega.

Í flokkum fólksbíla (hatchback) og millibíla (crossover) voru gerðir frá CUPRA, SEAT, Toyota og Volkswagen metnar. Fimm stjörnu bíllinn CUPRA Formentor fékk hæstu einkunn meðal þessara gerða fyrir vernd fullorðinna, 91%, og VW ID.3 stóð upp úr með 87% einkunn fyrir vernd barna.

Deila grein: