Mikilvægt að tryggja gott ástand bílsins og hjólbarða

Lestími: 3 mín

Það er gott að fara vel yfir bílinn áður en veturinn skellur á og kanna til að mynda hvort hjólbarðarnir séu hæfir til vetraraksturs. Þá má ekki klikka á góðum rúðuþurrkum, rúðupissi og vitanlega gömlu góðu sköfunni. Eftir ofsalega ofankomu í vikunni sem leið mátti öllum verða ljóst að búnaður ökutækja skiptir máli.

Allt of margir ökumenn ruku af stað á slitnum sumardekkjum sem að sögn lögreglunnar olli bæði töfum og eignatjóni en blessunarlega hafi ekki orðið alvarleg slys á fólki. Þótt við Íslendingar séum vön ýmsum veðrum er góð vísa aldrei of oft kveðin og því ágætis áminning að fara yfir helstu öryggisatriði bifreiða þegar kemur að vetrarakstri.

Í sérblaði, Vetur, sem fylgir Morgunblaðinu dag kemur fram að mikilvægt er að fylgjast með færð og veðurspá áður en lagt er af stað og að tryggja gott ástand bílsins og hjólbarða. Félag íslenskra bifreiðaeigenda leggur áherslu á að velja vetrardekk sem henta akstursaðstæðum hverrar byggðar og minna á að heilsársdekk eru ekki alltaf hentug í íslensku vetrarfæri. Björn Kristjánsson, tækniráðgjafi hjá FÍB, segir að í ís og hálku séu nagladekk betri kostur en heilsársdekk en við aðrar aðstæður séu þau sambærileg.

„Gripið er svipað á blautu og þurru malbiki og getur naglalaust dekk jafnvel staðið sig betur þar auk þess sem það stendur sig betur í vatnsakstri og dregur úr líkum á að bíllinn fari að fljóta. Helstu ókostir sem fylgja síðan nagladekkjunum eru aukið slit á götum og mengun auk veggnýs eða hávaða sem naglarnir mynda bæði inni í bíl og í umhverfinu,“ segir Björn í samtalinu við Morgunblaðið.

Björn bendir einnig á að ekki eru öll heilsársdekk eins eða hentug fyrir íslenskan vetrarakstur.

„Dekk sem eru merkt með M+S (e. Mud and Snow) eru ekki endilega æskileg í snjóakstri þó þau dugi þokkalega við mildar veðuraðstæður í Mið-Evrópu. Best er að leita að þriggja tinda tákninu með snjókorni, það gefur til kynna að viðkomandi dekk sé hannað fyrir vetraraðstæður. Einnig hefur það verið lenskan hér heima að selja vetrardekk sem heilsársdekk. Það er í sjálfu sér í lagi en gúmmíblandan í þeim er þannig að hún helst mjúk þrátt fyrir mikinn kulda en þegar yfirborðshiti fer yfir 8-10 gráður geta dekkin farið að slitna óþarflega mikið. Því hvet ég bíleigendur til að kynna sér vel hvaða heilsársdekk eru undir bílnum og leita álits, til dæmis hjá dekkjaverkstæði eða FÍB um hvort dekkin séu hæf til vetraraksturs.“

Öryggisatriði yfirfarin í skoðun

Aðspurður segir Björn að í seinni tíð hafi dregið úr þörfinni á sérstökum vetrarundirbúningi bíla.

 „Oftar en ekki er farið yfir þessa grunnþætti á bílum sem eru þjónustaðir reglulega, eins og frostþol kælivatns. Annars er gott að ganga úr skugga um að ljós, rúðuþurrkur og rúðuvökvi sé í lagi þegar sólin er lágt á lofti og rökkrið tekur við. Þó helst það alltaf í hendur – fyrsta kuldakastið og start-aðstoðir hjá FÍB aðstoð,“ segir Björn og bætir við að meðalendingartími rafgeyma sé í kringum fimm ár.

„Ef bíllinn er farinn að verða þungur í gang yfir sumartímann þá mun rafgeymirinn líklega svíkja í fyrsta frostinu. Hægt er að láta mæla ástand geymisins.

Naglar ekki alltaf nauðsyn

 En hvernig eru aðstæður ólíkar á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, geta ökumenn í Reykjavík sleppt vetrardekkjum?

 „Stutta svarið er já, ef eingöngu er ekið innanbæjar og sérstaklega yfir daginn þegar vetrarþjónusta er í gangi þá ætti það ekki að vera vandamál,“ segir Björn.

 „Hins vegar mælum við alltaf með því að fólk fari aðeins yfir hjá sér hvort það þurfi í raun nagladekk. Ef fólk þarf að aka yfir heiðar á hverjum degi eða ekur reglulega út á land þá gæti verið góð hugmynd að setja nagla undir. Ef bíllinn er eingöngu notaður innanbæjar eða það er annar bíll á heimilinu þá gæti verið ágætt að sleppa nöglunum.“

Skoða ástand hjólabúnaðar Björn segir að það sé ágætt að vera vakandi fyrir hjólabúnaði bílsins, sérstaklega fyrstu kílómetrana eftir dekkjaskiptin. Til dæmis er algengt að loftþrýstingsljós logi í mælaborði og gæti þurft að endurstilla það eða athuga hvort réttur þrýstingur hafi verið settur í dekkin.

„Eftir nokkurra kílómetra akstur er ágæt regla að ganga úr skugga um að felgurær séu full-hertar. Ef bíllinn er óeðlilegur í stýri eða byrjar að titra eftir dekkjaskipti, þá að stoppa strax og tryggja að öll dekkin séu vel hert og með réttum loftþrýstingi. Það getur líka verið gott að skoða dekkin sem koma undan bílnum, á seinni árum hefur aukist umtalsvert að bílar þurfi að fara oftar í hjólastillingu án þess endilega að högg eða annað hafi komið á hjólabúnaðinn. Röng staða hjóla getur eyðilagt dekkið á mjög skömmum tíma ásamt því að bíllinn getur látið i illa að stjórn, sérstaklega í hálku,“ segir Björn Kristjánsson.

Deila grein: