Þýskur dómstóll hefur sakfellt fjóra fyrrverandi stjórnendur Volkswagen fyrir svik og dæmt tvo þeirra í fangelsi fyrir þátt þeirra í útblásturshneykslinu sem kom upp fyrir tæpum áratug.
Fyrrverandi þróunarstjóri, Heinz-Jakob Neusser, fékk skilorðsbundinn eins árs og þriggja mánaða fangelsisdóm frá dómstólnum í borginni Braunschweig.Fyrrverandi yfirmaður aksturseftirlitskerfa, sem aðeins er nafngreindur sem Hanno J, var dæmdur í tveggja ára og sjö mánaða fangelsi, að því er þýskir fjölmiðlar greindu frá.
Þyngsti dómurinn, fjögur ár og sex mánuðir, féll í hlut fyrrverandi yfirmanns dísilvélaþróunar, Jens H, en fjórði sakborningurinn fékk skilorðsbundinn eins árs og tíu mánaða dóm. Sakborningarnir geta áfrýjað dómum.
Hneykslið hófst í september 2015
Hneykslið hófst í september 2015 þegar Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna (EPA) sendi frá sér tilkynningu um brot þar sem fram kom að Volkswagen hefði átt við vélbúnað sem gerði dísilbílum kleift að standast losunarpróf en menguðu mun meira við raunverulegan akstur.
Fyrirtækið hefur greitt meira en 33 milljarða dollara í sektir og bætur til bíleigenda. Tveir stjórnendur VW voru dæmdir í fangelsi í Bandaríkjunum. Fyrrverandi yfirmaður Audi-deildar fyrirtækisins, Rupert Stadler, fékk skilorðsbundinn 21 mánaða dóm og 1,1 milljón evra (920.000 punda) sekt. Dómi hans er enn hægt að áfrýja.
Þeir fjórir sem sakfelldir voru á mánudag, og hafa verið fyrir rétti síðan 2021, áttu upphaflega að fá mál sín tekin fyrir samhliða máli fyrrverandi forstjóra VW, Martin Winterkorn. Málaferlum gegn honum hefur verið frestað vegna heilsufarsvandamála hans og óljóst er hvenær hann gæti komið fyrir rétt. Winterkorn hefur neitað sök.
Frekari málaferli eru í gangi gegn 31 öðrum grunuðum í Þýskalandi.