Verðbilið á milli rafbíla og jarðefnaeldsneytis bíla hefur minnkað

Lestími: < 1 mín

Í samanburðaúttekt sem Félag þýskra bifreiðaeigenda, ADAC, lét vinna hefur verðbilið á milli rafbíla og jarðefnaeldsneytisbíla minnkað. Að kaupa rafbíl hefur yfirleitt verið talin nokkuð dýr fjárfesting  fram að þessu en markaðurinn hefur breyst á undanförnum árum.

 Í úttekt ADAC kemur fram að fyrir tveimur árum voru aðeins þrír rafbílar sem kostuðu undir 30.000 evrum. Í dag eru sjö gerðir undir 25.000 evrum og sá ódýrasti er Dacia Spring sem kostar frá 17.000 evrum .

ADAC bar saman litla ódýra rafbíla. Citroën e-C3 You, Fiat Grande Panda Electric Red, Hyundai Inster Select, BYD Dolphin Surf Boost, Leapmotor T03 og Dacia Spring Electric 65 Expression. Þeir sem leita að bílum frá þýskum framleiðendum um og undir €25.000 munu leita árangurslaust. Litlir rafbílar eins og VW e-Up! hafa verið teknir úr framleiðslu. Innflytjendur ráða ríkjum, en kínversk merki eins og BYD og Leapmotor sækja í sig veðrið.

Hyundai Inster náði bestum árangri

Hyundai Inster náði bestum árangri með umfangsmiklum eiginleikum, góðum aksturseiginleikum og mesta drægninu sem er um 290 kílómetrar. Þrátt fyrir að vera styttri en fjórir metrar er hann rúmgóður og vel búinn öryggisbúnaði. Fiat Grande Panda Electric stendur sig einnig vel með góða aksturseiginleika og leiðandi stjórnun, en býður upp á færri eiginleika og virðist tiltölulega dýr.

Minnstu bílarnir tveir lenda í neðstu sætunum. Leapmotor T03  þarf betri aksturdeiginleika og aðstoðarkerfi. Með hámarksburðargetu upp á aðeins 289 kg er hann ofhlaðinn með fjórum fullorðnum. Dacia Spring er í neðsta sæti og býður enn upp á hóflega gæði. Drægni, hleðslugeta og aksturseiginleikar eru áfram veikburða.

Deila grein: