FÍB kannaði verð á umfelgun hjá 31 dekkjaverkstæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Miðað er við umfelgun á einum dekkjagang á fjórar felgur.
Niðurstöður könnunarinnar sýna að mikill verðmunur getur verið á milli verkstæða. Kostnaðarmunur við umfelgun á 16 tommu álfelgum undir fólksbíl getur verið allt að 79%. Það er svipuð niðurstaða og í verðkönnun FÍB sem gerð var 2023. Verðmunurinn á umfelgun á 18 tommu álfelgum er tæplega 79% en var 71% í könnuninni 2023.
Allt að 79% verðmunur á umfelgun
Spurt var: Hvað kostar umfelgun og jafnvægisstilling annars vegar fyrir fólksbíl á 16 tommu álfelgum (stærð 205/55/16) og hins vegar fyrir jeppa eða jeppling á 18 tommu álfelgum (stærð 235/60/18)?
Óskað var eftir listaverði með virðisaukaskatti, án afsláttar eða sérkjara. Þau fyrirtæki sem veita FÍB afslátt eru merkt með * og nánari upplýsingar um FÍB-afslættina má finna á heimasíðu félagsins fib.is.
Lægsta verðið á umfelgun og jafnvægisstillingu á 16 tommu álfelgum reyndist vera hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, 9.764 kr., sem er óbreytt frá könnuninni árið 2023. KS var einnig með hagstæðasta verðið fyrir umfelgun og jafnvægisstillingu á fjórum 18 tommu felgum.
Dýrust var 16 tommu umfelgunin hjá Max1, 17.454 kr. Max1 var einnig með hæsta verðið fyrir umfelgun og jafnvægisstillingu á fjórum 18 tommu álfelgum, 22.587 kr.
Meðalverð á umfelgun og jafnvægisstillingu fyrir 16 tommu dekk var rúmlega 13.930 kr.
Meðalverð á umfelgun og jafnvægisstillingu fyrir 18 tommu dekk var 18.300 kr.
Costco býður upp á umfelgun fyrir 10.000 kr. jafnt fyrir 16 og 18 tommu felgur en það er háð skilyrðum um að dekkin hafi verið keypt hjá þeim. Þessi þjónusta er eingöngu fyrir meðlimi Costco. Vegna þessara skilmála er fyrirtækið ekki með í þessari könnun.
Einungis var kannað verð á þessari tegund bifreiðaþjónustu. Ekki var spurt um þjónustustig eða gæði.








