Liðin helgi er ein stærsta ferðahelgi ársins. Mikið var í gangi, stórar bæjarhátíðir og fótboltamót sem drógu að sér marga gesti. Veður var víðast gott og lögregla var sýnileg á vegum. Helgin virðist sem betur fer hafa að verið laus við alvarleg slys í umferðinni.
Fram kom í viðtölum við reynda lögreglumenn um helgina að ekki voru allir til fyrirmyndar í umferðinni. Allt of mikið bar á hraðakstri og margir sektaðir vegna þess. Hannesi Þór Guðmundsson varðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sagði í fréttum Sýn að honum findist miklu meiri hraðakstur og meiri ótillitssemi almennt í umferðinni en hann hefði áður séð á 30 ára ferli í lögreglunni.
Framkvæmdasvæði
Lögreglan hefur hert eftirlit með akstri við framkvæmdasvæði. Þar hefur borið allt of mikið á óæskilegri hegðun og margir teknir fyrir hraðakstursbrot. Lögreglan hefur svipt allnokkra ökumenn ökuréttindum fyrir að hafa ekið á tvöföldum hámarkshraða og rúmlega það á framkvæmdasvæðum þar sem hraðinn hefur verið tekinn niður tímabundið.
Það er með ólíkindum að það þurfi að segja fullorðnu fólki að hegða sér þar sem framkvæmdir standa yfir og menn og tæki eru við vinnu nálægt akstursbrautum. Það er grunnskylda allra vegfarenda að virða lög og reglur og stuðla að sem mestu öryggi allra.
FÍB Aðstoð stendur vaktina
Samkvæmt upplýsingum frá þjónustuaðilum FÍB Aðstoðar var helgin nokkuð hefðbundin og ekki þurfti að sinna alvarlegum eða erfiðum útköllum.
Varadekk eða dekkjaviðgerðarsett

Með algengari þjónustuútköllum sem koma inn á borð FÍB Aðstoðar er dekkjaaðstoð. Sprungið dekk er ekki flókin aðgerð ef varadekk, tjakkur og felgulykill er til staðar. Nýrri bílar eru fæstir með varadekk, sem er miður, og sumir meira segja ekki með kvoðu eða dælu. Dæla og kvoða er lágmarksbúnaður sem dugar skammt ef rifa kemur á dekk. Við það ástand sem við búum við víða á vegum eru dekkjavandræði mun algengari en í nágrannalöndunum.
FÍB hvetur alla sem tækifæri hafa til að hafa varadekk með sér á ferðalagi. Aðgæta þarf í upphafi ferðar hvort varadekkið og önnur dekk undir bílnum séu í lagi og með réttan loftþrýsting. Kanna þarf ástand tjakks, felgulykils og annarra verkfæra sem æskilegt er að hafa meðferðis. Til viðbótar er gott að hafa vinnuhanska, dráttartóg og startkapla í bílnum.