Að velja rétt vetrardekk getur verið vandasamt og ekki bætir úr skák að mikill misskilningur ríkir á Íslandi um hvaða gerðir eru í boði og hvaða dekk henta íslenskum aðstæðum best.
Ég hef starfað í nær sjö ár sem verkfræðingur hjá bílaframleiðandanum Volvo Cars í Svíþjóð og tekið þar þátt í þróun aksturseiginleika (e. Vehicle dynamics) bílanna. Þar á meðal hef ég leitt dekkjaþróun með áherslu á akstursþægindi, veggrip og stýrisviðbragð við fjölbreyttar aðstæður í nánu samstarfi við sex af stærstu dekkjaframleiðendum heims. Þá hef ég stýrt vetrardekkjaprófun á snjó, ís og malbiki. Gróflega áætlað hef ég reynsluekið yfir 300 umgöngum af vetrardekkjum og yfir 500 settum af sumar- og heilsársdekkjum á yfir 30 ólíkum bílgerðum frá Volvo og samkeppnisaðilum. Þessir bílar hafa verið bæði bensín-, dísil- og rafknúnir, auk tvinn- og tengiltvinnbíla, með fram-, aftur- og fjórhjóladrifi.
Hugtakaskrá
- Slitlag (e. Tread/surface): Yfirborð dekksins sem kemst í beina snertingu við veginn. Megintilgangur þess er að mynda núning við veginn og þar með grip. Snertiflötur dekksins við veginn er að jafnaði á stærð við fullvaxinn lófa eða póstkort og telur aðeins um 1–4% af heildaryfirborði dekksins.
- Slitlagskubbar (e. Tread blocks) og rákir (e. Grooves): „Kubbar“ myndaðir á yfirborði dekks þegar rákir eru skornar. Kubbarnir grípa í veginn á meðan rákirnar leiða burt vætu og draga úr hættu á floti.
- Hliðarveggur (e. Sidewall): Lóðrétti hluti dekksins sem hefur mest áhrif á burðarþol, dempun og akstursþægindi. Þar má einnig finna nafn framleiðanda og gerð, mál og helstu upplýsingar um dekkið. Til einföldunar er málamiðlunin sú að mýkri hliðarveggur eykur þægindi en stífari tryggir betri stuðning og stöðugleika. Dekkið svignar undir háu hliðarálagi í beygjum og hluti hliðarveggjar snertir þá veginn.
- Öxl (e. Shoulder): Sá flötur sem tengir slitlagið og hliðarvegginn, þ.e. brúnin á milli lóðrétta og láretta flatarins. Helstu hlutverk hennar eru losun hita sem byggist upp við núning, stöðugleiki í beygjum, frárennsli bleytu í gegnum rákir og dempun á veggný.
- Míkróskurður (e. Sipes/siping): Næfurþunnar, hlykkjóttar (sikksakk) rákir þvert á slitflöt dekks. Skurðurinn skilur eftir sig fjölda hvassra brúna og gerir slitlagskubbana sveigjanlegri og ná þeir því betur að þekja smáar ójöfnur í vegyfirborði og „klóra“ betur í samþjappaðan snjó. Fylgikvilli þess er þó latt stýrisviðbragð og aukið dekkjaslit á þurru malbiki.
- Gúmmíblanda (e. Rubber compound): Hlutfall nátturulegra- og ónáttúrulegra gúmmíafurða, auk blöndu af kísli, olíum, kolefni, plastefnum og öðrum fylliefnum dekkja, hafa m.a. áhrif á „glerbreytingarhitastig“ (e. Glass transition temperature) gúmmíblöndunnar. Lægra glerbreytingarhitastig → mýkra gúmmí og meira grip við lægra lofthitastig.
- M+S: Stytting á „mud and snow“. Merking á dekkjum sem tilgeina færni í leðju og snjó. Athugið: Engin löggild vottun fylgir þessari merkingu getur því dekkjaframleiðandi smellt M+S merkingu á dekkið sitt án þess að hafa prófað dekkið við þess konar aðstæður.
- 3PMSF – Þrítinda-snjókorn: Stytting á „Three-peak mountain snowflake“. Löggild vottun vetrardekkja fyrir rásfestu í samþjöppuðum snjó. Athugið: Vottunin gerir aðeins kröfu um rásfestu (e. Traction) í beinni línu og tilgreinir ekkert um hemlun eða akstur í beygju. Því er ekki nóg að reiða sig einungis á þessa merkingu þegar velja skal dekk.

Í stuttu máli stendur valið á milli þriggja gerða vetrardekkja; mið-evrópsk (mild), norræn (gróf) og negld. Í tilfelli dekkja á oftast við að dýrari dekk skila betri afköstum en gott er að afla sér heimilda í dekkjakönnunum áður en kreditkortið er straujað.
Í daglegu (íslensku) tali er oft talað um „heilsársdekk“ en þau eru oftar en ekki, því miður, rangnefnd. Heilsársdekk eru vissulega til og flokkast þau í tvo flokka: evrópsk- og norður-amerísk en stuttlega verður fjallað um þau hér á eftir.
Í lok þessarar greinar má finna einfaldaða töflu sem ber saman eiginleika mismunandi dekkja við vetraraðstæður.
Vetrardekk

Mið-evrópsk vetrardekk eru mildustu eiginlegu vetrardekkin og henta best við vetraraðstæður á þeim markaðssvæðum sem nafnið er kennt við. Þar eru vetur oftast mildari en á Norðurlöndum, vætusamir og að mestu lausir við snjóþyngsli. Þegar þar snjóar er yfirleitt nægilegt grip til að komast leiðar sinnar án vandræða en höfuðáhersla er lögð á grip í vætu og stöðugleika á þurru og blautu malbiki við lægra lofthitastig. Þau eru oft kölluð „hraðbrautar-vetrardekk“ í bílaiðnaðinum. Þessir eiginleikar sjást í munstri dekksins en þar má finna djúpar, beinar rákir eftir endilöngu dekkinu til að losa vatn og fyrirbyggja flot, líkt og í sumardekkjum, en þó talsvert af míkróskornum slitlagskubbum sem grípa þá betur í snjó. Öxlin er rúnnuð og tryggir veggrip á malbiki og dregur úr veggný. Mynsturdýptin er yfirleitt um 7–8 mm.

Norræn vetrardekk eru grófustu ónegldu vetrardekkin. Gúmmíblanda þeirra er mýkst allra vetrardekkja og eru því sveigjanleg og formanleg við lægsta mögulega hitastig. Ólíkt mildari dekkjunum er mynsturdýptin orðin meiri (oft um 8–10 mm) og míkróskurðirnir fleiri og flóknari í lögun sem grípa betur í snjóinn og safna honum í rákirnar. Þótt órökrétt mætti virðast veitir uppsafnaður og samanþjappaður snjór í djúpum rákunum núning og grip við snjóinn á veginum. Þá er öxlin orðin mun skarpari, míkróskurðir ná yfirleitt yfir allan slitflötinn og djúpar rákir aðgreina slitlagskubbana sem eru mjúkir viðkomu og auðvelt er að sveigja með fingrunum. Þetta skilar sér í auknum stöðugleika og hliðargripi í beygjum í snjó og sýnir einna skýrast getumuninn á milli norrænna og mið-evrópskra dekkja í akstri. Kostnaðurinn við aukið grip á snjó og ís er skorturinn á beinu, endilöngu rákunum og eru norrænu dekkin því viðkvæmari gegn floti í mikilli bleytu. Mjúk uppbygging þeirra gera þau einnig lakari í snerpu og hemlun á þurru malbiki.

Nagladekk eru byggð upp á svipaðan hátt og norrænu dekkin með viðbættum nöglum, oftast um 80–120 stykki í hverju þeirra. Naglarnir eru úr sterkum málmi, volfram-karbíð (e. Tungsten Carbide) og mega ekki ganga meira en 2 mm út fyrir yfirborðið. Málið er þó ekki svo einfalt að hægt sé að „negla“ venjuleg vetrardekk, því að undirlagið undir hverjum nagla er sérstaklega styrkt og án míkróskurðar til að taka við álaginu og hámarka virkni naglanna. Stærsti kostur nagladekkja er framúrskarandi grip og öryggistilfinning í hálku og á þéttpökkuðum snjó en í mýkri snjó eru þau almennt á pari við ónegld norræn dekk, enda hafa naglarnir þá lítið til að klóra í. Skaðsemi naglanna á auðu malbiki er vel þekkt og eykur slit vega og þannig losun heilsuspillandi efna. Annar ókostur er vitaskuld slæm hljóðvist, enda skapast mikill hávaði þegar hver nagli slæst í malbikið sem heyrist vel bæði innan og utan bíls. Þá er veggripið yfirleitt enn minna á blautu og þurru malbiki en á norrænum dekkjum því að naglarnir eiga til að skauta á veginum og vinna þannig gegn gripi gúmmísins. Sérstaklega ber að varast mikið notuð nagladekk þar sem yfirborð naglanna hefur slípast niður og skilar því enn verri afköstum við allar aðstæður.
Heilsársdekk
Á Íslandi ríkir mikill misskilningur um gerðir og notagildi heilsársdekkja. Algengast er að sjá mið-evrópsk vetrardekk auglýst, seld og notuð sem heilsársdekk. Í sumum tilfellum er rætt um ‚ónegld heilsársdekk‘ en í reynd eru það oft norræn vetrardekk. Hvort sem vetrardekkin eru mild eða gróf eiga þau það sameiginlegt að eiga lítið eða ekkert erindi á vegum landsins sex mánuði ársins eða svo og eru því ekki eiginleg heilsársdekk. Nánar verður farið í ástæður þess hér á eftir. Hin raunverulegu heilsársdekk – þau evrópsku og norður-amerísku – eru, hins vegar lítt hentug íslenskar vetraraðstæður.

Norður-amerísk heilsársdekk (e. All-season tyres) líkjast mest sumardekkjum þegar kemur að uppbyggingu, gúmmíblöndu og mynstri á slitfleti. Djúpar, beinar rákir eftir endilöngu dekkinu hrinda burt vatni til að fyrirbyggja flot, líkt og hefðbundin sumardekk en þó eru stundum nokkrir míkróskurðir sem stuðla að ögn betra gripi á snjó. Helstu kröfur norður-ameríska markaðssvæðisins eru slitþol og er algeng krafa um lífslengd upp á 40.000 mílur eða rúmlega 64.000 km, samanborið við 40.000 km hefðbundinna sumardekkja. Veggrip og akstursþægindi eiga að líkjast sumardekkjum en eru þó stinnari og hafa lakara grip sökum sterkbyggðari uppbyggingu. Þótt flest dekk af þessari gerð séu merkt M+S (e. Mud and Snow) er engin vottun sem þeirri merkingu fylgir.

Evrópsk heilsársdekk eru að mörgu leyti eins og blanda af sumar- og vetrardekkjum (mildum) þegar kemur að gúmmíblöndu og mynstri á slitfleti. Þau eru langvinsælust á bílaleigum og flotabílum fyrirtækja í Mið- og Suður-Evrópu. Þar ráða þægindin og kostnaðurinn mestu, enda er ekki þörf á dekkjaskiptum tvisvar á ári eða stórum lager fyrir dekkjahótel. Ókostirnir eru hins vegar skertir aksturseiginleikar og veggrip samanborið við hrein sumar- og vetrardekk allan ársins hring. Mynstrið er yfirleitt stefnuháð (e. Directional), oft V-laga fyrir rásfestu í snjó og enn bætist í míkróskurðinn á yfirborðinu. Þessi dekk bera 3PMSF (e. Three Peak Mountain Snowflake) merkingu og eru því lögleg vetrardekk víðsvegar um Evrópu.
Almenn húsráð að lokum
- Gúmmíblanda vetrardekkja er hönnuð til að vera mjúk og ná hámarksafköstum undir 7°C, en sumardekkja yfir 7°C
- Ástand dekkja er helst háð aldri þeirra og sliti. Á hliðarveggnum, ýmist að utan- eða innanverðu, má finna fjögurra stafa tölu sem tilgreinir hvenær dekkið var framleitt ( t.d. 4525 = vika 45, ár 2025). Góð þumalputtaregla er að að nota dekk ekki lengur en 6–7 ár, jafnvel þótt slit og mynsturdýpt virðist í lagi. Enn er talsvert af náttúrulegum gúmmíafurðum í dekkjum og verða þau hörð og stökk með árunum. Það sést oft vel á sprungnum hliðarveggjum dekkja sem komin eru fram yfir síðasta neysludag.
- Almenna mynsturdýpt fyrir mismunandi dekk má sjá í meðfylgjandi töflu, en lögleg mynsturdýpt í Evrópu er 1.6 mm fyrir sumardekk og 3 mm fyrir vetrardekk. Þó er góð regla að skipta dekkjunum út vel fyrir það.
- Hið eina rétta er að kaupa fjögur dekk frá sama framleiðanda af sömu gerð og undirgerð og forðast alfarið að blanda saman ólíkum dekkjum.
- Gamalt (og rangt) húsráð var hér áður fyrr að setja gripmeiri dekk (t.d. nagladekk að vetrarlagi) á þann öxul sem drífur bílinn áfram og gripminni á hinn öxulinn. Það er í stuttu máli algjör fásinna og fyrirgerir jafnvægi bílsins m.t.t. rásfestu, hemlunar og beygjugetu og getur verið stórhættulegt.
- Að keyra á vetrardekkjum allan ársins hring (og í sumum tilfellum að kalla þau sumardekk) flýtir talsvert fyrir sliti, þá sérstaklega þegar lofthiti er hærri en 7°C, vegna gúmmíblöndu þeirra. Hættan er sú að þegar næsti vetur gengur í garð hafi þau tapað megninu af vetrareiginleikum sínum. Að utanskildu sliti eru loks allir aksturseiginleikar vetrardekkja um sumar almennt ófullnægjandi og geta reynst hættulegir.
- Því miður þarf sérstaklega að kveða niður þessa útbreiddu mýtu: Það að naglhreinsa dekk með naglbýt breytir því ekki í sumardekk.
- Athuga skal loftþrýsting dekkja á tveggja til þriggja mánaða fresti, oftar ef miklar hitabreytingar eiga sér stað. Fyrir hverjar 10°C sem hitastig lækkar fer þrýstingurinn niður um 0.07 bör (~1 PSI) og er því mikilvægt að stilla þrýstinginn þegar dekkin hafa náð útihitastigi (þ.e. ekki eftir að dekkin hafi staðið inni í hlýjum bílskúr eða á dekkjaverkstæði). Þrýstinginn fyrir allar dekkjastærðir má finna ýmist á límmiða í hurðarfalsi bílstjóra eða inni í eldsneytisloki.
- Umfelgun fer illa með dekk og felgur til lengri tíma. Ólíkt flestum bíleigendum á Norðurlöndunum eiga langflestir á Íslandi tvo umganga af dekkjum en aðeins einn af felgum. Þótt kostnaðurinn við aukasett af felgum sé ekki óverulegur getur hann vegið upp á móti langri bið og kostnaði við umfelgun tvisvar á ári sem og ótímabæru sliti á dekkjum og felgum.
- Greinarhöfundur mælir með Norrænum vetrardekkjum og nagladekkjum fyrir íslenskar vetraraðstæður.
Eiginleikar dekkja við vetraraðstæður








