Miklar skattahækkanir en óboðlegt vegakerfi

Lestími: 2 mín

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2025 er enn og aftur verið að auka álögur á ökutæki og notkun þeirra. Samtals nema allar álögur á bíla og umferð um 95 milljörðum króna á ári. Til nýframkvæmda og viðhalds samgöngumannvirkja á landi rennur aðeins innan við þriðjungur þess fjár. Varhugavert er að skattpína umferðina úr hófi. Greiðar samgöngur eru ein helsta undirstaða efnahagslífsins. Þjóðhagslegur ábati þeirra er óumdeildur. Kæfandi skattlagning sem lamar frjálst flæði umferðar vinnur gegn eðlilegum hagvexti.

Á árinu 2023 námu tekjur ríkissjóðs af ökutækjum og eldsneyti 1,3% af vergri landsframleiðslu. Í skýringatexta frumvarpsins kemur fram að stefnt sé að hækka bílaskattana í 1,7% af vergri landsframleiðslu álíka og á árunum 2010–2017. Úr 1,3% í 1,7% er 30% hækkun skatta á bíleigendur. Gert er ráð fyrir að þær lagabreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu hafi jákvæð áhrif á tekjur ríkisjóðs og að á árinu 2025 verði tekjur af ökutækjum og eldsneyti um 1,5% af vergri landsframleiðslu. Stærsti hluti þessar skatttekna af umferðinni er tekinn vegna notkunar fjölskyldubíla.

Ofan á þessar skattahækkanir eru uppi víðtæk áform um vegtolla á höfuðborgarsvæðinu, yfir Ölfusá, Hornarfjarðarósa og víðar. Það er hlálegt að tala fyrir skattalækkunum í aðdraganda kosninga og bera svo ábyrgð á gríðarlegum skattahækkunum á bifreiðanotkun fjölskyldna.

Ekki hallar á ríkissjóð þegar kemur að tekjuöflun af ökutækjum og eldsneyti miðað við útgjöld til uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins. Að jafnaði hefur ríkissjóður þrefalt meiri tekjur af bílum og umferð en fer í vegakerfið.

Vegakerfið er í óviðunandi ástandi vegna aukinnar umferðar og öryggisbrests. Stjórnvöld hafa í áraraðir ekki tryggt nauðsynlega fjármuni til viðhalds og uppbyggingar og víða hafa vegir grotnað niður og vegfarendur eru í hættu. Uppbygging vegakerfisins hefur aðeins að litlu leyti mætt stóraukinni umferð þungaflutningabíla og gríðarlegri umferð ferðamanna á bílaleigubílum.

Viðhaldsleysi og ófullnægjandi nýframkvæmdir í vegagerð eru á ábyrgð ríkisstjórnar og Alþingis. Auknu álagi með uppbyggingu atvinnustarfsemi og vexti í ferðaþjónustu hefur engan veginn verið mætt á liðnum árum. Að láta innviði grotna niður er lántaka með afborgunum inn í framtíðina. Hvað ætla stjórnmálaflokkarnir að gera til að bæta úr þessu ástandi?

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB

Fyrst birt í 2.tbl. 2024 FÍB Blaðið

Deila grein: