Sænskir verkfræðingar hafa hannað nýtt fjölakreinahringtorg sem þeir kalla Hasselhring. Nýja hönnunin á að bæta aðgengi ökutækja að hringtorgum og fækka árekstrarstöðum samanborið við hefðbundin fjölakreinahringtorg í dag. Fulltrúar WSB sem er sænskt, alþjóðlegt verkfræði- og samfélagsþróunarfyritæki telja að Hasselhringurinn geti skilað allt að 22 prósent meiri afkastagetu (VISSIM líkan) og fækkað árekstrum um allt að 72 prósent samanborið við samsvarandi hringtorg sem eru ríkjandi í dag.

Eru hringtorg rússnesk rúlletta fyrir erlenda ökumenn á íslandi?
Í Svíþjóð hefur hringtorgum fjölgað mikið á síðustu árum. Helsta vandamálið varðandi akstur í hringtorgum er það hversu margir ökumenn eiga erfitt með að skilja hvaða reglur gildi í hringtorgum. Þetta veldur slysum og pirringi í umferðinni.
Hér á landi eykur það á vandann að reglur um akstur í hringtorgum eru sér íslenskar og ekki í samræmi við umferðarreglur í flestum löndum. Hægri rétturinn gildir ekki í íslenskum hringtorgum. Ferðamenn í íslenskri umferð átta sig mjög illa á þeim reglum sem mörlandinn ekur eftir í hringtorgum.
Í rannsókn Katrínar Halldórsdóttur verkfræðings hjá Vegagerðinni frá 2016 kom fram að á árunum 2011-2015 urðu 457 umferðarslys í 17 tveggja akreina hringtorgum í grennd við og innan höfuðborgarsvæðisins. Í 102 tilvikum kom erlendur ökumaður við sögu eða í 22 prósent tilvika. Á sama tíma komu erlendir ökumenn við sögu í 16 prósent heildar umferðarslysa á landinu. Þessi tölfræði vekur áhyggjur m.a. vegna þess að síðan hefur erlendum ökumönnum á vegum landsins snarfjölgað samfara auknum fjölda ferðamanna og stórauknu aðstreymi erlends vinnuafls. Allt er þetta til að auka á slysahættu og skapa angist og óvissu hjá ökumönnum. Þrátt fyrir þessa þróun virðist ekki á dagskrá að breyta umferðarlögum í tengslum við hringtorg hér á landi.

Hasselhringur
Hugmyndin er að ökumaður velji akrein áður en hann fer inn í hringtorgið og haldi sig á þeirri akrein allan hringinn. Engar akreinaskiptingar þurfa að eiga sér stað inni í hringtorginu. Þetta minnkar slysahættu og bætir umferðaflæði, sérstaklega fyrir vörubíla og strætó.
Hönnunin er innblásin af hollenskum hringtorgum sem kölluð eru ,,Turbohringtorg”. Í stað þess að nokkrar akreinar sameinast inni í hringtorginu eru akreinarnar greinilega aðskildar með hindrunarsvæðum. Í Hasselhringnum er skýrara hvert hver akrein liggur og ökumenn vita nákvæmlega hvaða akrein á að velja áður en farið er inn í hringtorgið.
Frá umferðarljósum til hringtorga
Umeå er oft kölluð hringtorga höfuðborg Svíþjóðar með yfir 70 hringtorg. Umeå var meðal fyrstu þéttbýlisstaðanna í Svíþjóð sem fjárfestu í hringtorgum í stórum stíl. Fyrsta hringtorgið var byggt snemma á tíunda áratugnum og hringtorg komu í staðin fyrir ljósastýrð gatnamót. Innleiðing hringtorganna skilaði auknu umferðaröryggi með fækkun alvarlegra slysa.

Hringtorg á Íslandi
Líkt og vegfarendur þekkja þá hefur hringtorgum fjölgað verulega á Íslandi á liðnum áratugum. Í Vallahverfinu einu í Hafnarfirði eru 15 hringtorg. Hringtorg eru umferðarstjórnunarmannvirki sem leysa af af hólmi aðrar umferðarstýringar og umferðarljós. Hringtorg draga úr hraða og helsti kostur þeirra er að slys á fólki eru afar sjaldgæf. Nokkuð ber samt á minni munatjónum í hringtorgum sem oft má rekja til misskilninga á þeim reglum sem gilda eða slæmrar hönnunar.
Varasamasta hringtorg landsins er staðsett við Flatahraun í Hafnarfirði (FH torgið) samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu. Þarna er mikið um ákomur en ekki mörg slys á fólki. Ein helsta orsök hárrar árekstrartíðni við FH hringtorgið tengist auka armi úr hringtorginu sem liggur inn í Bæjarhraun. Þarna er um slæma hönnun að ræða.
Hasselhringur í Uppsölum?
Þrátt fyrir áætlaða kosti er ekki búið að byggja neinn Hasselhring í Svíþjóð. Samgöngustofa Svíþjóðar segir að áformað sé að hanna og byggja fyrsta Hasselhringinn í Uppsölum. Ef sá árangur næst sem verkfræðingar WSB hafa reiknað út næst, þ.e. færri árekstrar og minni tafir, þá munu fleiri sveitarfélög og veghaldarar líklega fylgja í kjölfarið. Hvort nýja hönnunin verður staðallinn varðandi framtíðar hringtorg í Svíþjóð á eftir að koma í ljós.
Nú er það spurning hvort Vegagerðin eigi ekki að kanna Hasselhrings hönnunina varðandi framtíðar úrbætur á Flatahrauns hringtorginu.