HMS og Samgöngustofa verða að gyrða sig í brók

Lestími: 3 mín

Opinber öryggisinnköllun bifreiða á Íslandi í lamasessi

Á Íslandi hefur Húsnæðis og mannvirkjastofnun eða HMS umsjón með vöruöryggi í samræmi við evrópska reglugerð um öryggi varnings innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Öryggisinnköllun bifreiða fellur undir þetta eftirlit. HMS ber að gefa út tilkynningar og vara við hættulegum vörum á markað. Það er misbrestur á að stofnunin sinni þessu hlutverki sínu í samræmi við lög og reglur og alþjóðlega samninga.

HMS er ætlað að sjá um markaðseftirlit með áherslu á markaðsgæslu, mælifræði og vöruöryggi. HMS á að samhæfa opinbera markaðsgæslu með öðrum eftirlitsaðilum og stuðla að öflugu eftirliti og neytendavernd. HMS á að tryggja að vörur uppfylli lögbundnar kröfur og stöðva sölu á eða innkalla hættulegar vörur.

Vöruvaktin                           

HMS er aðili að Vöruvaktinni sem er samhæft vefsvæði sem á að einfalda og samræma upplýsingagjöf til neytenda á Íslandi til að efla öryggi þeirra. Um er að ræða samstarfsverkefni níu eftirlitsstofnana sem eiga að veita skýrar og aðgengilegar upplýsingar um hættulegar og gallaðar vörur og vöruöryggi.

Á heimasíðu Vöruvaktarinnar eru engar upplýsingar um öryggisinnköllun á Citroën. Á heimasíðunni er aðeins hægt að finna fjórar tilkynningar um innköllun eða öryggishættu í bílum sem allar eru dagsettar í apríl 2025.

Kveikur á RÚV og Takata loftpúðar                                                               

Það vakti mikla athygli í apríl 2019 þegar Kveikur á RÚV fjallaði um skort á miðlun upplýsinga til neytenda út af gölluðum Takata loftpúðum. Á þeim tíma sögðust stjórnvöld vera að herða tökin á neytendavernd og öryggismálum en því miður virðist meðferð þessara mála hafa færst til verri vegar á öllum þessum árum.

Öryggisinnkallanir færðar inn i ökutækjaskrá                                                             

Í kjölfar umræðunnar fyrir tæpum sex árum um skort á miðlun upplýsinga til neytenda vegna öryggisinnkallana í bílgreininni boðaði FÍB til samráðsfundar með aðilum sem málið varðar. Til fundar mættu fulltrúar Neytendastofu, sem þá hafði með höndum öryggisinnkallanir hins opinbera sem HMS fer með í dag, Samgöngustofu, Neytendasamtakanna, Bílgreinasambandsins og bifreiðaumboða. Einhugur var á fundinum um að til að bæta ástandið þyrfti að undirbúa það að færa inn í ökutækjaskrá allar upplýsingar um innkallanir eftir verksmiðjunúmerum ökutækja. Næst þegar ökutækið kæmi í aðalskoðun þá kæmi upp ábending um að ökutækið væri með öryggisinnköllun sem ekki hefði verið framkvæmd. Bíllinn fengi þá endurskoðunarmiða sem færi af þegar búið væri að framkvæma innköllunarviðgerðina.

Ef ökutæki í umferð er með bilað stefnuljós má gera ráð fyrir að lögregla stöðvi ökutækið og sekti fyrir brotið. Ef bifreið kemur til aðalskoðunar með innköllun sem ekki hefur verið sinnt vegna hættulegs loftpúða, mögulegrar sjálfsíkveikju eða skertrar stýrigetu þá gerist ekkert.

Samgöngustofa heldur utan um ökutækjaskrá og upplýsingar um innkallanir eru hjá HMS. Um er að ræða tvær sjálfstæðar opinberar stofnanir sem í dag heyra stjórnarfarslega undir sitt hvort ráðuneytið annars vegar innviðaráðuneytið og hins vegar félags- og húsnæðismálaráðuneytið. Í tíð síðustu ríkisstjórnar heyrðu báðar stofnanirnar undir innviðaráðherra.

Hvernig á öryggisinnköllun að fara fram?                                                             

Kerfið á að virka þannig að framleiðandi eða eftirlitsaðili uppgötvar galla og tilkynnir það til sölu- og umboðsaðila í hverju landi fyrir sig innan Evrópu. Tilkynningu um öryggisbrest vöru á einnig að senda til samevrópskrar stofnunar sem heitir Safety Gate. HMS á Íslandi og sambærilegar stofnanir í Evrópu fá tilkynningar frá Safety Gate, bílaframleiðendum og umboðsaðilum í hverju landi. Á Íslandi bera umboðin ábyrgð á því að koma tilkynningum um innkallanir til neytenda. HMS á að tryggja aðgang neytenda að skýrum og upplýsingum um hættulegar bifreiðar og margar aðrar vörur. Þetta gerir HMS ekki og þar með eru íslensk stjórnvöld að brjóta á neytendum og svíkjast um að sinna lögboðinna skyldu sinni.

Bifreiðar sem falla utan umboða eða eru fluttar inn frá löndum utan Evrópu

Eitthvað er um það að bifreiðar á eftirmarkaði hér á landi sem fluttar voru inn frá Evrópu hafi ekki tengingu við íslenskt bifreiðaumboð. Gagnvart þeim neytendum sem eiga þessi ökutæki gegnir HMS lykilhlutverki varðandi það að miðla upplýsingum um innkallanir og öryggisgalla ef upp koma.

Flest íslensku bifreiðaumboðin sinna öryggisinnköllunum og öðrum innköllunum vel. Þau umboð sem eru með bestu framkvæmdina standa vel að verki og reyna að leita uppi eigendur ökutækja sem innköllun nær til. Brögð eru að því að umboð sendi tilkynningu um innköllun bara til þeirra sem umboðið hefur upplýsingar um lögheimili, netpóst eða aðrar tengiliðaupplýsingar í sínum kerfum. Aðilar sem flutt hafa inn ökutæki sjálfir eða tekið bíl heim með búslóð fá þá ekki upplýsingar um nauðsynlegar öryggisaðgerðir.  Tímasetningar á innköllunum eru ekki alltaf í samræmi við alvarleika. Þarna gegnir opinberi eftirlitsaðilinn HMS lykilhlutverki en sinnir því takmarkað.

Mikilvægt                                                                                                                                  

Það má ekki vanmeta mikilvægi innkallana. Samkvæmt lögum eru þær aðeins tilkynntar í alvarlegustu tilfellum sem ógna heilsu, lífi eða öryggi ökumanna, farþega og annarra vegfarenda. FÍB og beinir því enn og aftur til stjórnvalda að koma þessum öryggismálum umferðarinnar í ásættanlegt horf.

Deila grein: