Rukkað er inn á bílastæði við 43 ferðamannastaði um allt land. Nánast allir þessir staðir hafa fengið styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bæta úr aðgengi og auka öryggi. Í nýútkomnu FÍB-blaði kemur fram að á síðastliðnum 10 árum hefur sjóðurinn úthlutað 6,6 milljörðum króna til uppbyggingar ferðamannastaða.
Óheimilt er að innheimta aðgangseyri að stöðunum samkvæmt skilyrðum Framkvæmdasjóðsins. Heimilt er þó að taka gjald fyrir veitta þjónustu og telur sjóðurinn afnot bílastæða og salerna vera í þeim flokki. FÍB telur aftur á móti ljóst að þar sem bílastæðagjöldin skili víðast hvar ríflegum hagnaði, þá sé í raun um aðgangseyri að ræða. Þar með eru gestir ekki aðeins að borga fyrir þjónustu, þ.e. að fá að leggja bíl og nota salerni, heldur einnig fyrir að komast að ferðamannastaðnum.
Um ólögmæta gjaldtöku er því að ræða og sætir undrun að Ferðamálastofa, sem hefur umsjón með Framkvæmdasjóðnum, skuli engin afskipti hafa af gjaldtökunni.
Nánar er fjallað um þessi mál í FÍB-blaðinu, sem sent er til félagsmanna.







