Í sumar byrjuðu landeigendur að rukka 1.000 krónur fyrir bílastæði við Múlagljúfur í landi Kvískerja undir Öræfajökli. Múlagljúfur eru hrikaleg gljúfur sem ferðamenn hafa farið að skoða í vaxandi mæli. Árið 2023 komu þangað 120 þúsund manns.
Í nýútkomnu FÍB-blaði kemur fram að gjaldtakan á bílastæðinu hafi byrjað í beinu framhaldi af því að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða úthlutaði 90 milljón króna styrk til uppbyggingar á göngustígum að Múlagljúfri til að bæta öryggi ferðamanna. Sú vinna er hafin.
Landeigendur standa hins vegar ekki að þessum framkvæmdum í Múlagljúfri, heldur sveitarfélagið Hornafjörður. Sveitarfélagið leggur til 22 milljónir króna á móti Framkvæmdasjóðnum. Þessar 112 milljónir koma sem sagt úr vösum skattgreiðenda.
„Framlag“ landeigenda er að slétta bílastæði við varnargarð þar sem gangan hefst í Múlagljúfur. Að varnargarðinum liggur 2 km vegur sem Vegagerðin lagði á sínum tíma. Salerni hafa einnig verið sett upp við bílastæðið, en ekki verið tekin í notkun.







