FÍB og Neytendasamtökin sendu nýlega sameiginlega áskorun til stjórnvalda og bílastæðafyrirtækja vegna P-korta. Handhafar þeirra korta eru undanþegnir gjaldskyldu á öllum bílastæðum samkvæmt 87. grein umferðarlaga. Gildir þar einu hvort bílastæðin eru á vegum sveitarfélaga eða einkaaðila. Engu að síður stunda bílastæðafyrirtækin það grimmt að krefja handhafa P-korta um greiðslu og hika ekki við að senda vangreiðslukröfur. Slíkar kröfur eru skýrt lögbrot.
Lögin heimila ekki slíkar kvaðir
Bílastæðafyrirtækin bera fyrir sig tæknileg vandkvæði, að álestrarvélar þeirra geti ekki séð hvort viðkomandi bíll er með P-kort. Fyrirtækin bjóða korthöfum þess í stað að senda tölvupóst með þriggja tíma fyrirvara um fyrirhuguð afnot bílastæða. Lögin heimila ekki slíkar kvaðir.
Greiðslukröfurnar eru ekki réttmætar
Flestum handhöfum P-kortanna er ljóst að greiðslukröfurnar eru ekki réttmætar. Viðkomandi einstaklingar standa því oft og tíðum í tímafrekum samskiptum við bílastæðafyrirtækin um að fá kröfurnar felldar niður. Í raun er þar um öfuga sönnunarbyrði að ræða – P-korthafar eru settir í þá stöðu að sanna rétt sinn.
Bílastæðafyrirtækjum ber að fara eftir lögunum
Miklu nær væri að handhafar P-kortanna létu greiðslukröfurnar sem vind um eyrun þjóta og að bílastæðafyrirtækin sanni réttmæti þeirra. Lögin eru nefnilega skýr, bílastæðafyrirtækjum ber að fara eftir þeim án undanbragða.







