„Samsett hlutfall“ er mælikvarði sem tryggingafélögin nota um afkomu af tryggingastarfseminni. Því lægra sem hlutfallið er undir 100%, þess betri er afkoma félaganna. Þá er kostnaður lægri en iðgjaldatekjur.
Á fyrstu sex sex mánuðunum er amsett hlutfall lögbundinna bílatrygginga 78,5%
Í FÍB-blaðinu, sem sent var félagsmönnum í byrjun nóvember, kemur fram að fyrstu 6 mánuði þessa árs (2025) var samsett hlutfall lögbundinna bílatrygginga 78,5%. Árið 2024 var hlutfallið 87% og árið 2023 var það 92%. Svo lágt hlutfall ár eftir ár hefur ekki sést áður. Þetta sýnir einfaldlega að iðgjöld lögbundinna bílatrygginga eru langtum hærri en þau þurfa að vera. Þann mun greiða bíleigendur.
Ekkert tryggingafélaganna hefur hins vegar gripið tækifærið til að ná í fleiri viðskiptavini með því að lækka iðgjöldin. Bílatryggingar standa að jafnaði undir 60% af umsvifum tryggingafélaganna.
Tekjur tryggingafélaga eru af tvennum toga. Annars vegar iðgjöld og hins vegar fjárfestingartekjur af þeim miklu sjóðum sem félögin safna með ofteknum iðgjöldum.
Treysta fyrst og fremst á fjárfestingartekjur
Þó svo að samsett hlutfall trygginga fari yfir 100% þá þýðir það ekki að tap sé á starfsemi tryggingafélaganna, þar sem þau treysta fyrst og fremst á fjárfestingartekjur. Enda er það svo að í gegnum tíðina hafa félögin oft sýnt verulega góðan hagnað þó tryggingastarfsemin sé í mínus.







