Hvað er WLTP staðallinn?

Lestími: 2 mín

Margir hafa eflaust heyrt um WLTP staðalinn þegar talað er um drægni rafmagnsbíla, en hvað þýðir það? WLTP stendur fyrir Worldwide Harmonised Light Vehicle Test Procedure. Í stuttu máli er þetta prófunarferli sem allir bílar (rafmagnsbílar, bensínbílar, díselbílar o.s.frv.) fara í gegnum. Tilgangurinn er að allir bílar, með mismunandi orkugjafa, séu mældir á sama hátt. Þessi nálgun býður upp á meira réttmæti og traust. 

Sögulegt samhengi

Upprunalega prófunarferlið var New European Driving Cycle (NEDC) en það prófunarferli var orðið úrelt og var skipt út fyrir WLTP árið 2017. WLTP er notað um allan heim á meðan NEDC var einungis notað í Evrópu og voru önnur mælitæki notuð í Japan, Bandaríkjunum og Kína. Auk þess er WLTP prófunarferlið 10 mínútum lengra en NEDC, en það er 30 mínútur í stað 20 mínútna. Innfærsla WLTP miðar að því að gera prófunina raunhæfari og þannig færa niðurstöðurnar nær raunveruleikanum. Þar sem prófið þarf þó að vera staðlað er WLTP enn framkvæmt í rannsóknarstofu til að tryggja að öllum bílum séu sett sömu skilyrði.

WLTP prófunin

Prófunin á sér stað á rannsóknarstofu við 23°C en einnig við 14°C til þess að mæla kolefnislosun, og er í gangi í 30 mínútur eða tæpa 24 km. Prófunin skiptist niður í fjögur stig sem hafa mismunandi áhrif á orkunotkun og ræður drægni (eða eldsneytisnýtingu). Þessi stig eru lágur hraði (allt að 56,5 km/klst), meðal hraði (allt að 76,6 km/klst), hár hraði (allt að 97,4 km/klst) og mjög hár hraði (allt að 131,3 km/klst). Þessi stig eiga að tákna akstur sem má finna í þéttbýli, úthverfum, dreifbýli og á þjóðvegi. Skiptingin er 52% innan þéttbýlis og 48% utan þéttbýlis. 

Þegar prófnunin byrjar þá keyrir bíllinn á lága hraðanum og hjólin eru kyrr í kringum 50% af tímanum til þess að líkja við bið í umferðarteppu. Hraðinn eykst svo hægt og rólega í gegnum prófið þangað til hámarkshraðanum er náð en það er aðeins í stutta stund. Prófið notar gögn frá rafhlöðunni og tölur um orkunotkun til þess að reikna út drægni frá fullri hleðslu niður í tóma rafhlöðu. 

Er samræmi á milli WLTP og raun drægni?

Það er töluverður munur að mæla orkunotkun í rannsóknarstofu við kjöraðstæður og raunverulegum aðstæðum þar sem veðurfar breytist. Sem dæmi er veðrið öðruvísi eftir árstíðum, sem getur þýtt að rafbílar skili 10-20 prósent minni drægni á köldum vetrardögum. 

Það er einnig mjög ólíklegt að ökumaður keyri alltaf á sléttri jörðu eða alltaf beint áfram. WLTP tekur tillit til þátta eins og vind mótstöðu en staðallinn á erfitt með að meta áhrif rigningar, hvassra vinda og mikils hita eða kulda á drægni rafmagnsbíla. 

Íslenskar aðstæður eru sérstakar á þann hátt að veðuraðstæður breytist hratt. Hér er vindasamt, rigning og snjór um vetur. Allt eru þetta þættir sem hafa áhrif á drægni (eða eldsneytisnýtingu) rafmagnsbíla. Það verður því að huga að raundrægnin hér á landi er ekki sú sama og WLTP staðallinn sýnir.

Deila grein: