Það má styðjast við einfaldar viðmiðunarreglur til að fara ekki fram úr sér við kaup á bifreið. Há gjöld á ökutæki og eldsneyti eiga stóran þátt í hvað einkabíllinn vegur þungt í heimilisrekstri landsmanna. Ef miðað er við þumalputtareglur fjármálaráðgjafa virðist stór hluti landsmanna ekki iðka nægilega skynsemi þegar kemur að bílakaupum. Þetta kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins í aukablaði um bíla.
Björn Kristjánsson, tækniráðgjafi hjá FÍB, segir fólk oft ekki átta sig á hvað útgjöld vegna bifreiðanna á heimilinu séu mikil, en vandann megi að hluta til rekja til þess hvað gjöld á bifreiðar og eldsneyti eru há. Raunin er, að sögn Björns, að ef tvær fyrirvinnur eru á heimili, og bæði með íslensk meðallaun, þá er á mörkunum að fjölskyldan geti leyft sér að kaupa einn nýjan bíl.
20% og 40% viðmiðin
„Það eru ekki til neinar fastmótaðar reglur, en það er algengt viðmið að æskilegt sé að útgjöld vegna samgangna fari ekki yfir 20% af ráðstöfunartekjum heimilisins,“ segir Björn en undir þá tölu falla þá afborganir af bíl, tryggingar, viðgerðir og eldsneyti, auk t.d. tilfallandi ferða með leigubíl eða strætisvagni.
„Þá er önnur tala sem hefur verið fleygt fram; að þegar bifreið er keypt inn á heimilið þá eigi hún helst ekki að kosta meira en sem nemur 40% af ráðstöfunartekjum fjölskyldunnar yfir árið.“ Ef þessi hlutföll eru höfð til viðmiðunar kemur fljótlega í ljós að Íslendingar eru upp til hópa á dýrari bílum en þeir ættu að vera. Segir Björn algengt að fólk leiti leiðsagnar hjá FÍB um þessi mál til að vanda sig betur við bílakaupin og yfirsjáist þá iðulega alls kyns útgjaldaliðir,“ segir Björn.
Þjónustuskoðanir koma illa við fjárhag fólks
„Þjónustuskoðanir til að viðhalda ábyrgð á nýlegum bíl eiga það t.d. til að koma illa við fjárhag fólks, og getur kostnaður við þessar árlegu heimsóknir flakkað allt frá 30.000 upp í og yfir 200.000 kr. Í einhverjum tilfellum fylgja nokkrar þjónustuskoðanir með nýjum bílum við kaup. En það er góð regla að spyrjast fyrir um kostnað við þjónustuskoðanir næstu ára áður en gengið er frá kaupum,“ segir Björn Kristjánsson tækniráðgjafi hjá FÍB.






